Erlent

Annað áfall fyrir Kennedy fjölskylduna: Saoirse Kennedy Hill lætur lífið 22 ára

Eiður Þór Árnason skrifar
Á þessari mynd frá árinu 2000 sést Saoirse Kennedy Hill leggja hvíta rós að leiði John F. Kennedy. Hann var myrtur árið 1963.
Á þessari mynd frá árinu 2000 sést Saoirse Kennedy Hill leggja hvíta rós að leiði John F. Kennedy. Hann var myrtur árið 1963. Vísir/AP
Saoirse Kennedy Hill, barnabarn Robert F. Kennedy, er látin. Þetta kom fram í tilkynningu frá Kennedy fjölskyldunni í gær. Saoirse var 22 ára að aldri.

Tilkynning fjölskyldunnar kemur eftir að fregnir bárust af því að sjúkrabíll hafi verið kallaður að hinu sögufræga Kennedy Compound í Massachusettsríki, þar sem margir meðlimir Kennedy fjölskyldunnar búa enn í dag.

Einnig var búið að greina frá því að einstaklingur hafi verið fluttur á Cape Cod sjúkrahúsið og að lögregla á staðnum væri að rannsaka dauðsfall sem átti sér stað í sömu götu og húsakynni Kennedy fjölskyldunnar.

Robert F. Kennedy, afi Saoirse Kennedy Hill eða Bobby Kennedy eins og hann var oft kallaður, var bandarískur forsetaframbjóðandi og stjórnmálamaður. Hann gegndi stöðu dómsmálaráðherra í ríkisstjórn eldri bróður síns John F. Kennedy á árunum 1961 til 1964.

Amma Saoirse, Ethel Kennedy, sagði í tilkynningu frá fjölskyldunni að „heimurinn væri ekki eins fallegur í dag,“ eftir fráfall hennar.

Ekki hafa enn borist fregnir af því hvernig andlátið bar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×