Erlent

Trump teflir djarft í tollastríði

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Trump var ekki sáttur þegar bandaríska sendinefndin greindi honum frá gangi viðræðna og sakar forseta Kína um að ganga á bak orða sinna.
Trump var ekki sáttur þegar bandaríska sendinefndin greindi honum frá gangi viðræðna og sakar forseta Kína um að ganga á bak orða sinna. Vísir/EPA
Í tísti sem Donald Trump, Bandaríkjaforseti, birti í dag boðaði hann tollahækkanir á kínverskan innflutning að andvirði þrjú hundruð milljarða Bandaríkjadala.

Trump sagði að leiðtogar ríkjanna myndu halda áfram viðræðum en frá og með 1. september myndi Bandaríkjastjórn hækka tolla á kínverskan varning um auka 10%.

Viðskiptaþvinganirnar munu hafa áhrif á neytendur í Bandaríkjunum en vörur á borð við Iphone, strigaskó, raftæki og leikföng munu hækka í verði með nýju tollunum.

Trump lét í ljós óánægju sína eftir að hafa fundað með bandarísku sendinefndinni, með Steven Mnuchin fjármálaráðherra og Robert Lighthizer í broddi fylkingar, í Hvíta húsinu í dag en sendinefndin sneri aftur heim í dag eftir að hafa setið við samningaborðið í Shanghai í vikunni.

Trump varð afar ósáttur þegar sendinefndin greindi honum frá gangi viðræðna og þegar hann komst að því að Kínverjar gætu ekki lofað því að fjárfesta í bandarískum landbúnaðarvörum. Trump sagðist hafa talið sér trú um að það hefði verið niðurstaða fundar hans og Xi Jinping, forseta Kína, í sumar. Hann sagði að leiðtogi Kína hefði einnig lofað sér að reyna að koma í veg fyrir innflutning á Fentanyl til Bandaríkjanna.

Þjóðarleiðtogarnir tveir sættust á að hefja samningaviðræður að nýju á leiðtogafundi G20-ríkjanna í Japan í lok júní. Trump segir að þrátt fyrir boðaðar tollahækkanir sé hann sannfærður um að samstarf ríkjanna tveggja verði gott í framtíðinni.


Tengdar fréttir

Bandaríkjamenn bjartsýnir á lausn deilunnar við Kína

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna segir viðræðurnar við Kínverja vera komnar níutíu prósent áleiðis. Forsetar ríkjanna tveggja munu hittast í Japan um helgina. Viðræðum var slitið í maí og bentu ríkin tvö hvort á annað.

„Mér er alveg sama þótt ég móðgi aðra“

Donald Trump, Bandaríkjaforseta, var stillt upp við vegg á blaðamannafundi G20-ríkjanna sem lauk í Osaka í Japan í dag. Á fundinum var hann spurður hvers vegna hann hefði ekki getað svarað spurningum um blaðamanninn Jamal Khashoggi að krónprinsinum í Sádi-Arabíu viðstöddum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×