Hlutdeild Samsung á snjallsímamarkaði í Evrópu var 40,6 prósent á síðasta ársfjórðungi. Það er um fimmtungsvöxtur frá sama tíma í fyrra, þegar fyrirtækið hafði 33,9 prósent markaðarins. Þetta kom fram í skýrslu sem greiningarfyrirtækið Canalys birti og tæknimiðillinn Engadget greindi frá.
Skýra má þennan vöxt Samsung, að minnsta kosti að hluta til, með vaxandi vinsældum millidýrra síma frá fyrirtækinu, samkvæmt Canalys. Fólk sé sum sé frekar að sækja í síma á borð við Galaxy A50 eða A70 heldur en flaggskipin Galaxy Note 10 og Galaxy S10 sem kosta tvöfalt, jafnvel þrefalt meira.
Samsung-fólk er þó ekki það eina sem getur fagnað góðum fjórðungi. Kínverski framleiðandinn Xiaomi átti einnig góðan fjórðung, reyndar betri en Samsung. Markaðshlutdeildin var 9,6 prósent á síðasta fjórðungi sem er tæplega helmingi meira en 6,5 prósentin sem fyrirtækið hafði á sama tíma í fyrra.
Öðrum gekk öllu verr. Apple fór úr 17 prósentum í 14,1 prósent og HMD Global, sem framleiðir Nokia-snjallsíma, úr 3,2 prósentum í 2,7 prósent. Þá kemur ekki á óvart eftir ásakanir um njósnir og viðskiptabann í Bandaríkjunum að Huawei fór úr 22,4 prósentum í 18,8 prósent.
Samsung vex í Evrópu vegna millidýrra snjallsíma
