Það er afar mikilvægur leikur í Árbænum í kvöld er Fylkir og Grindavík eigast við í síðasta leik 16. umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla.
Fylkis-menn hafa einungis unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni og eru fyrir leikinn í 9. sætinu með nítján.
Eftir sigur Víkinga og KA í gær er Grindavík hins vegar komið í fallsæti en þeir eru með sautján stig eftir þá fimmtán leiki sem búnir eru.
Pepsi Max-deild karla þetta árið er afar jöfn og spennandi, sér í lagi frá 3. sætinu og alla leið niður í ellefta sætið.
Tapi Fylkismenn í kvöld með óhagstæðri markatölu gætu þeir verið í fallsæti eftir 16. umferðina en vinni þeir sigur á þeim gulu í kvöld sitja þeir í áttunda sætinu.
Leikurinn mikilvæga í kvöld verður í þráðbeinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst leikurinn klukkan 19.15.
Strax að leik loknum gera Hörður Magnússon og spekingar hans upp umferðina í Pepsi Max-mörkunum en mörkin hefjast klukkan 21.15.
