„Ég er gríðarlega stoltur af strákunum því þeir lögðu mikla vinnu í leikinn og stóðu við stóru orðin. Við þurftum að svara fyrir okkur eftir skituna gegn Breiðabliki,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, í samtali við Vísi eftir sigurinn á Stjörnunni í dag.
KA-menn voru flengdir af Blikum á fimmtudaginn en sýndu allt aðra og betri frammistöðu í dag.
„Þá vantaði grunnvinnuna, vilja og dugnað, sem verður að einkenna lið eins og KA og hefur einkennt okkur á góðu köflunum í sumar. Fyrir leikinn sagði ég við strákana að við þyrftum stríðsmenn ekki dansara í dag,“ sagði Óli Stefán.
Aðstæður voru mjög erfiðar í dag en völlurinn var blautur og þungur.
„Í svona aðstæðum er það oft liðið sem vill þetta meira sem stendur uppi sem sigurvegari og mér fannst við gera það í dag,“ sagði Óli Stefán.
Með sigrinum í dag komst KA upp úr fallsæti. Akureyringar eru samt í erfiðri stöðu og ef Grindvíkingar vinna Fylkismenn annað kvöld dettur KA aftur niður í fallsæti.
„Þetta er bara staðan sem við erum í. Við tökum bara eitt verkefni fyrir í einu. Næst er erfiður útileikur gegn ÍBV. Í dag vorum við án sex leikmanna sem hafa verið í byrjunarliðinu, þar af fimm í öftustu línu, en vonandi tínast þeir inn einn af öðrum,“ sagði Óli Stefán.
Einn þeirra sem var fjarverandi í dag var markvörðurinn Aron Dagur Birnuson sem meiddist gegn Breiðabliki.
„Hann fékk þungt högg á lærið og er enn bólginn. Með svona meiðsli gætu þetta verið nokkrir dagar eða nokkrar vikur. Þetta kemur betur í ljós þegar bólgan hjaðnar,“ sagði Óli Stefán að endingu.
