Sheeran er staddur hér á landi til að halda tvenna tónleika á Laugardalsvelli. Fyrri tónleikarnir fóru fram í gær en þeir seinni verða haldnir í kvöld. Grímkell Sigurþórsson úrsali segir í samtali við Vísi að Sheeran hafi ekki virkað þreyttur eftir tónleikana, söngvarinn hafi verið afar þægilegur í samskiptum.
„Hann var virkilega skemmtilegur og alþýðlegur náungi að hitta. Hann var bara eins og gæinn í næsta húsi,“ segir Grímkell.
„Við fengum símtal fyrr í dag þar sem við vorum spurð hvort við gætum opnað verslunina því hann langaði svo að kíkja á okkur.“ Verslunareigendur hafi að sjálfsögðu orðið við því.
Sheeran mætti svo í búðina ásamt tveimur fylgdarmönnum og keypti sex úr, m.a. handa sjálfum sér og móður sinni. Í innkaupakörfuna fór til dæmis úrið Sif sem JS Watch hannaði sérstaklega fyrir Landhelgisgæsluna. Þá fékk Sheeran annað sérhannað úr í gjöf frá Senu, sem JS Watch hannaði fyrir íslenska karlalandsliðið þegar þeir komust á heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2016.
