Fótbolti

Ung framlína á móti Ungverjum og Sandra byrjar í markinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir í leik með Val í Pepsi Max deildinni í sumar.
Hlín Eiríksdóttir í leik með Val í Pepsi Max deildinni í sumar. Vísir/Bára
Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, hefur tilkynnt byrjunarlið sitt á móti Ungverjalandi á Laugardalsvelli í kvöld en þetta er fyrsti leikur íslensku stelpnanna í undankeppni EM 2021 og fyrsti keppnisleikur liðsins undir hans stjórn.

Sandra Sigurðardóttir stendur í marki í íslenska liðsins og það kemur síðan lítið á óvart í vali Jóns Þórs á varnar- og miðjumönnum liðsins.

Leikurinn hefst klukkan 18.45 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Ingibjörg Sigurðardóttir, Sif Atladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir eru vanar því að mynda saman varnarlínu Íslands og á miðjunni eru síðan þrjár af bestu knattspyrnukonum landsins eða þær Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.

Jón Þór teflir hins vegar fram ungri framlínu á móti Ungverjum í kvöld en þar eru allir leikmenn yngri en 25 ára og tvær af þremur eru fæddar í kringum aldarmótin.





Agla María Albertsdóttir (fædd 1999) og Hlín Eiríksdóttir (fædd 2000) eru þar sitt hvorum megin við Elínu Mettu Jensen (fædd 1995). Allar hafa þær farið á kostum í Pepsi Max deild kvenna í sumar en þetta eru þrír markahæstu leikmenn deildarinnar, Elín Metta og Hlín með fimmtán mörk og Agla María með tólf mörk.

Reynsluboltarnir Fanndís Friðriksdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir þurfa því allar að sætta sig við það að byrja á varamannabekknum í kvöld.

Byrjunarlið Íslands á móti Ungverjum í kvöld:

Markvörður

Sandra Sigurðardóttir | Valur

Varnarmenn

Ingibjörg Sigurðardóttir | Djurgarden

Sif Atladóttir | Kristianstads DFF

Glódís Perla Viggósdóttir | Rosengard

Hallbera Guðný Gísladóttir | Valur

Miðjumenn

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir | Utah Royals

Sara Björk Gunnarsdóttir | Wolfsburg

Dagný Brynjarsdóttir | Portland Thorns

Sóknarmenn

Hlín Eiríksdóttir | Valur

Elín Metta Jensen | Valur

Agla María Albertsdóttir | Breiðablik




Fleiri fréttir

Sjá meira


×