Skoðun

Mikilvægt skref fyrir leikjaiðnað

Vignir Örn Guðmundsson skrifar
Samtök leikjaframleiðenda fagna því að nú sé hafið nám í tölvuleikjagerð í nýjum menntaskóla Keilis á Ásbrú. Nám í tölvuleikjagerð á framhaldsskólastigi hefur verið áherslumál hjá samtökunum í nokkur ár og munu samtökin veita faglega ráðgjöf við framkvæmd námsins. Námið gerir nemendum kleift að komast í tæri við fjölbreytt viðfangsefni tölvuleikjagerðar og öðlast grundvallarfærni í faginu fyrr á lífsleiðinni.

Mikil aðsókn var í námið og komust færri að en vildu, alls 45 nemendur. Það er ekki að ástæðulausu að nemendur sýni tölvuleikjagerð og leikjaiðnaði áhuga. Á alþjóðavísu veltir leikjaiðnaður í dag meira en kvikmyndaiðnaður og tónlistariðnaður til samans, um 43,8 milljörðum Bandaríkjadollara eða rúmlega 5.000 milljörðum króna. Tölvuleikir leika því stærsta hlutverkið í afþreyingariðnaði, sérstaklega hjá upprennandi kynslóðum.

Mikil gróska hefur verið í íslenskum leikjaiðnaði síðastliðinn áratug. Fjöldi virkra leikjafyrirtækja á Íslandi hefur farið úr 5 í 19 á síðustu 10 árum. Í leikjaiðnaði starfa yfir 300 manns. Leikjaiðnaður er einstaklega hagrænn og skapandi iðnaður sem gengur ekki á auðlindir, byggir alfarið á hugviti, þarfnast fjölbreytts vinnuafls, býður há laun fyrir hæft starfsfólk og tekur nánast alla sína veltu erlendis frá, eða um 98% að meðaltali síðustu 10 ár. Nám í tölvuleikjagerð á framhaldsskólastigi er því sannarlega liður í að styrkja stoðir og grasrót leikjaiðnaðar hér á landi.

Samtök leikjaframleiðenda vilja koma á framfæri þakklæti til forsvarsmanna menntaskóla Keilis á Ásbrú fyrir eljusemi og þrek í að koma brautinni á laggirnar. Kerfið sagði nei í nokkur ár, en með nýrri forystu í menntamálum á Íslandi opnuðust dyr fyrir framsækið nám sem mætir eftirspurn hjá bæði nemendum og atvinnulífi. Samtökin vilja því færa Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sérstakar þakkir fyrir að taka af skarið og láta námið verða að veruleika. Það er til marks um opinn hug og sýn ráðherra á hugvitsdrifnar náms- og atvinnugreinar.

Höfundur er formaður Samtaka leikjaframleiðenda.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×