Körfubolti

ÍR-ingar eiga gott í vændum ef nýi leikmaðurinn spilar eins og gegn Íslandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roberto Kovac með boltann í leiknum gegn Íslandi í gær.
Roberto Kovac með boltann í leiknum gegn Íslandi í gær. MYND/FIBA.BASKETBALL
Einu Íslendingarnir sem gátu aðeins glaðst yfir leik Sviss og Íslands í forkeppni undankeppni EM 2021 í körfubolta karla í gær voru stuðningsmenn ÍR.

Þeir höfðu væntanlega takmarkaða ánægju af því að sjá Ísland tapa, 109-85, en nýi leikmaðurinn þeirra, Roberto Kovac, átti allavega stórleik fyrir Sviss.

Kovac reyndist íslensku vörninni afar erfiður í leiknum. Hann skoraði 29 stig og var stigahæstur á vellinum. Kovac tók einnig þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Kovac hitti úr fjórum af fimm skotum sínum inni í teig og sex af 14 skotum utan hans. Skotnýting hans var 53%.

Leikurinn í gær var sá langbesti hjá Kovac í undankeppninni og ef marka má hann eiga ÍR-ingar gott í vændum í vetur.

Kovac skoraði 13 stig og gaf fimm stoðsendingar í fyrri leik Íslands og Sviss sem Íslendingar unnu, 83-82. Í forkeppni undankeppninnar var hann var með 14,1 stig að meðaltali í leik.

Kovac, sem er 29 ára, lék síðast með Lions de Genève í heimalandinu.

ÍR-ingar eru á fullu að safna liði fyrir átökin í vetur. Í gær kynntu þeir nýjan Bandaríkjamann, leikstjórnandann Evan Singletary, til leiks.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×