Umfjöllun: Ísland - Moldóva 3-0 | Skyldusigur hjá strákunum Henry Birgir Gunnarsson skrifar 7. september 2019 18:30 Kolbeinn Sigþórsson kom Íslandi yfir með sínu 24. landsliðsmarki vísir/daníel Ísland tyllti sér á topp H-riðils undankeppni EM 2020, um stundarsakir að minnsta kosti, er strákarnir okkar unnu góðan 3-0 sigur á Moldóvu á Laugardalsvelli í dag. Sigurinn var sá fjórði af fimm leikjum Íslands í undankeppninni en næst mæta okkar menn Albönum ytra á þriðjudag. Það voru margir kátir er þeir sáu byrjunarliðið. Þar mátti sjá nafn Kolbeins Sigþórssonar í fyrsta sinn síðan árið 2016. Hamrén hefur verið að velja hann reglulega í hópinn þó svo hann hafi ekki verið að spila. Það var á stundum afar umdeilt. Kolbeinn þakkaði Hamrén svo sannarlega traustið er hann kom Íslandi yfir með laglegu skoti í teignum á 31. mínútu. Hann fór þá í flott samspil við Jón Daða og kláraði færið vel. Það gerðist nákvæmlega ekki neitt fyrstu 20 mínútur leiksins en þá hrukku strákarnir í gang. Færin komu allt í einu á færibandi og aðeins tímaspursmál hvenær Ísland kæmist yfir.Auðvelt verk Strákarnir héldu áfram að þjarma að Moldóvum eftir markið og Gylfi Sigurðsson var ekki fjarri því að koma Íslandi í 2-0 er hann átti ágætis skot úr aukaspyrnu rétt fyrir hlé. Strákarnir héldu áfram að þjarma að Moldóvum í upphafi síðari hálfleiks. Það vantaði annað mark til þess að ganga frá leiknum. Það mark kom á 55. mínútu. Ragnar Sigurðsson átti þá kraftskalla að marki eftir hornspyrnu, Moldóvar björguðu á línu en boltinn hrökk til Birkis sem skoraði af stuttu færi. Ljómandi fínt fyrir Birki sem er án félags í augnablikinu. Dagskránni var í raun lokið þarna en það gladdi mikið að sjá Jón Daða Böðvarsson skora sitt fyrsta mark í þrjú ár er þrettán mínútur lifðu leiks. Kannski ekki fallegasta markið en að því er ekki spurt. Hann hefði þó að ósekja mátt fagna meira, drengurinn.Fullkominn dagur Þessi leikur var skylduverkefni og liðið leysti það með sóma. Fyrstu 20 mínúturnar voru slakar en eftir það var bara eitt lið á vellinum. Fyrsta markið gekk frá Moldóvunum og þeir virtust ekki hafa nokkra trú á verkefninu eftir það. Hannes hafði það náðugt í markinu, vörnin lenti aldrei í miklum erfiðleikum og bakverðirnir áttu fínar rispur. Gamla framherjapar landsliðsins snéri til baka með stæl og skoruðu báðir. Það er mikið gleðiefni. Það sem meira er að þá fór engin aukaorka í leikinn, enginn fékk spjald og enginn meiddist. Þetta var í raun algjör draumadagur og því engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn fyrir leikinn gegn Albönum eftir helgi. Hamrén er augljóslega á hárréttri leið með liðið. EM 2020 í fótbolta
Ísland tyllti sér á topp H-riðils undankeppni EM 2020, um stundarsakir að minnsta kosti, er strákarnir okkar unnu góðan 3-0 sigur á Moldóvu á Laugardalsvelli í dag. Sigurinn var sá fjórði af fimm leikjum Íslands í undankeppninni en næst mæta okkar menn Albönum ytra á þriðjudag. Það voru margir kátir er þeir sáu byrjunarliðið. Þar mátti sjá nafn Kolbeins Sigþórssonar í fyrsta sinn síðan árið 2016. Hamrén hefur verið að velja hann reglulega í hópinn þó svo hann hafi ekki verið að spila. Það var á stundum afar umdeilt. Kolbeinn þakkaði Hamrén svo sannarlega traustið er hann kom Íslandi yfir með laglegu skoti í teignum á 31. mínútu. Hann fór þá í flott samspil við Jón Daða og kláraði færið vel. Það gerðist nákvæmlega ekki neitt fyrstu 20 mínútur leiksins en þá hrukku strákarnir í gang. Færin komu allt í einu á færibandi og aðeins tímaspursmál hvenær Ísland kæmist yfir.Auðvelt verk Strákarnir héldu áfram að þjarma að Moldóvum eftir markið og Gylfi Sigurðsson var ekki fjarri því að koma Íslandi í 2-0 er hann átti ágætis skot úr aukaspyrnu rétt fyrir hlé. Strákarnir héldu áfram að þjarma að Moldóvum í upphafi síðari hálfleiks. Það vantaði annað mark til þess að ganga frá leiknum. Það mark kom á 55. mínútu. Ragnar Sigurðsson átti þá kraftskalla að marki eftir hornspyrnu, Moldóvar björguðu á línu en boltinn hrökk til Birkis sem skoraði af stuttu færi. Ljómandi fínt fyrir Birki sem er án félags í augnablikinu. Dagskránni var í raun lokið þarna en það gladdi mikið að sjá Jón Daða Böðvarsson skora sitt fyrsta mark í þrjú ár er þrettán mínútur lifðu leiks. Kannski ekki fallegasta markið en að því er ekki spurt. Hann hefði þó að ósekja mátt fagna meira, drengurinn.Fullkominn dagur Þessi leikur var skylduverkefni og liðið leysti það með sóma. Fyrstu 20 mínúturnar voru slakar en eftir það var bara eitt lið á vellinum. Fyrsta markið gekk frá Moldóvunum og þeir virtust ekki hafa nokkra trú á verkefninu eftir það. Hannes hafði það náðugt í markinu, vörnin lenti aldrei í miklum erfiðleikum og bakverðirnir áttu fínar rispur. Gamla framherjapar landsliðsins snéri til baka með stæl og skoruðu báðir. Það er mikið gleðiefni. Það sem meira er að þá fór engin aukaorka í leikinn, enginn fékk spjald og enginn meiddist. Þetta var í raun algjör draumadagur og því engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn fyrir leikinn gegn Albönum eftir helgi. Hamrén er augljóslega á hárréttri leið með liðið.