Tónlist

GDRN valin bæjarlistamaður Mosfellsbæjar

Andri Eysteinsson skrifar
GDRN alsæl með útnefninguna.
GDRN alsæl með útnefninguna. Mosfellsbær
Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð, sem betur er þekkt undir listamannsnafni sínu GDRN, var í dag útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2019.

Þessa dagana hefur staðið yfir bæjarhátíðin Í túninu heima í Mosfellsbæ en Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert en Björk Ingadóttir, formaður nefndarinnar veitti Guðrúnu verðlaunagrip ásamt viðurkenningafé.

Guðrún Ýr er uppalin í Mosfellsbæ og hefur frá unga aldri stundað nám í tónlist. Hún hóf fiðlunám fimm ára og stundaði fiðlunám í ellefu ár. Því næst hóf hún djasssöng og djasspíanó nám samhliða námi í Menntaskólanum í Reykjavík.

Hún gaf út sín fyrstu lög árið 2017 en sló í gegn sumarið 2018 með laginu Lætur mig. GDRN hlaut fern verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2019, þar á meðal sem söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphop-tónlistar.

Guðrún segir verðlaunin vera mikinn heiður.„ En nú er ég búin að vera með minn eigin feril sem GDRN ekki nema í þrjú ár en ég hef verið að læra tónlist í um tuttugu ár og ég stæði ekki hérna í dag ef ekki væri fyrir allt frábæra tónlistarfólkið og tónlistarkennarana sem eru búnir að miðla af sinni reynslu til mín. Mig langar því að tileinka þeim þessi verðlaun, af því ég væri ekki hér í dag ef það væri ekki fyrir þau,“ sagði bæjarlistarmaður Mosfellsbæjar 2019, söngkonan Guðrún Ýr Eyfjörð, GDRN.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×