Íslenski boltinn

Fjölnir kominn upp í Pepsi Max-deildina og staða Gróttu góð | Njarðvíkingar fallnir og Þróttarar í vondum málum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjölnismenn fagna.
Fjölnismenn fagna. vísir/bára
Fjölnir er kominn upp í Pepsi Max-deild karla eftir eins árs fjarveru. Fjölnismenn gerðu 1-1 jafntefli við Leiknismenn í 21. og næstsíðustu umferð Inkasso-deildarinnar í dag. Fjölni dugði jafntefli til að endurheimta sæti sitt í Pepsi Max-deildinni.

Ingibergur Kort Sigurðsson kom Fjölni yfir á 77. mínútu en Gyrðir Hrafn Guðbrandsson jafnaði sex mínútum síðar.



Staða Gróttu er afar góð. Liðið vann Njarðvík, 1-2, og er með þriggja stiga forskot á Leikni í 2. sæti deildarinnar. Seltirningum dugir jafntefli gegn Haukum í lokaumferðinni til að komast upp í efstu deild í fyrsta sinn.

Atli Geir Gunnarsson kom Njarðvík yfir á 32. mínútu en aðeins mínútum síðar jafnaði Valtýr Már Michaelsson fyrir Gróttu. Pétur Theodór Árnason skoraði svo sigurmark gestanna á 59. mínútu.

Njarðvíkingar eru sjö stigum frá öruggu sæti og þar með fallnir eftir tveggja ára veru í Inkasso-deildinni.

Magni kom sér upp úr fallsæti með sigri á Þrótti R., 3-1, á Grenivík. Gauti Gautason, Kian Williams og Guðni Sigþórsson skoruðu mörk Magnamanna sem hafa unnið fjóra af síðustu sex leikjum sínum.

Þetta var sjötta tap Þróttara í röð en þeir eru í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með 21 stig. Sindri Scheving skoraði mark Þróttar sem er einu stigi á eftir Haukum, Aftureldingu og Magna sem eru öll með 22 stig.

Kristófer Dan Þórðarson skoraði tvö mörk fyrir Hauka sem unnu Keflavík, 3-1. Aron Freyr Róbertsson var einnig á skotskónum. Kristófer Dan hefur skorað fimm mörk í síðustu tveimur leikjum Hauka sem eru aðeins stigi frá fallsæti þrátt fyrir tvo sigra í röð.

Rúnar Þór Sigurgeirsson skoraði mark Keflvíkinga sem eru í 7. sæti deildarinnar. Þeir hafa tapað tveimur leikjum í röð.

Víkingur Ó. bar sigurorð af Aftureldingu í Mosfellsbænum, 0-1. Harley Willard skoraði eina mark leiksins. Afturelding er enn í mikilli fallhættu en Víkingur siglir lygnan sjó í 6. sæti deildarinnar.

Þá vann Fram 3-0 sigur á Þór í Safamýrinni. Helgi Guðjónsson skoraði öll mörk Fram sem er í 4. sæti deildarinnar, einu sæti ofar en Þór sem hefur tapað þremur leikjum í röð.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×