Skoðun

Raunir lögreglustjórans

Óttar Guðmundsson skrifar
Fyrir mörgum árum gisti ég um tíma í næsta húsi við híbýli Ríkislögreglustjóra. Mér til mikillar furðu og gremju var hjólinu mínu stolið eina nóttina. Ég áttaði mig á því að glæpir viðgangast jafnvel í næsta nágrenni við þennan æðsta yfirmann lögreglunnar.

Mér datt þetta í hug á dögunum þegar sami embættismaður kom fram í Mogganum og upplýsti um neðanjarðarstarfsemi sem blómstraði í kringum hann. Hann sagðist vera fórnarlamb rógs og illmælgi og margir vildu koma sér úr embætti. Alls konar vandamál þrifust innan lögregluembættanna sem hann vildi taka á af karlmennsku og festu en fengi bara engu ráðið. Auk þessa væri hann skammaður eins og krakki fyrir eðlileg bílaviðskipti embættisins. Maður skilur kvartanir misyndismanns yfir illri meðferð lögreglunnar þegar sjálfur yfirlögreglustjórinn ber sig svo aumlega undan starfsbræðrum sínum og systrum.

Ég sárvorkenndi lögreglustjóra og viknaði þegar ég las um þessar raunir. Það er ekki á hverjum degi sem svo háttsettur embættismaður kastar grímunni og veitir innsýn í sálarlíf sitt. Undir harðri skel og borðalögðum einkennisbúningi var lítill dapur drengur sem sætir einelti á leikskólanum. Hann var fórnarlamb vikunnar en eineltið hélt áfram. Lögreglustjórar landsins sögðust ekki vilja leika við hann lengur. Dómsmálaráðherra hugsar málið. Sérfræðingar í fjölelti eiga að rannsaka málin innandyra hjá embættinu þar sem allir virðast leggja alla í einelti.

Það er sorglegt að sjá hversu illa er farið með þennan virðulega embættismann. Gerum eitthvað til að gleðja hann. Ráðum lögreglustjórann ævilangt í ­embættið og bætum fleiri gullröndum á ­embættisbúninginn.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×