Skoðun

Til fjölmiðla og upplýsingafulltrúa borgarinnar

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Í borginni starfa upplýsingafulltrúar sem eru í raun upplýsingafulltrúar meirihlutans. Eftir fundi senda þeir frá sér tilkynningar sem gjarnan slá ryki í augu fólks. Sagt er að borgarstjórn samþykkti eða borgarráð samþykkti o.s.frv. eins og allir sem einn hafi samþykkt eitthvað mál. Í krafti eins manns meirihluta þá eru mál samþykkt og þrátt fyrir mikla andstöðu hinna flokkana. Í borgarstjórn hafa allir flokkar atkvæðarétt. Þegar mál er samþykkt með 12 atkvæðum meirihlutans en gegn 11 atkvæðum minnihlutans birtist engu að síður fréttatilkynning frá upplýsingafulltrúum meirihlutans sem segir „borgarstjórn samþykkti“. Þessu þarf að breyta. Mjög oft er komið að máli við mig og ég spurð af hverju ég hafi samþykkt hin ýmsu mál meirihlutans. Þá fellur það í minn hlut að útskýra að ég hafi verið málunum andvíg eða setið hjá. Sú tilhögun að tilkynna að „borgarstjórn eða borgarráð samþykkti“ gefur almenningi ranga hugmynd um afstöðu borgarfulltrúa.

Flokkur fólksins lagði fram tillögu fyrr á árinu um að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn. Hún hljóðaði svona:

Lagt er til að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn. Markmiðið er að upplýsa almenning um afstöðu einstakra flokka til málsins/málanna. Ávinningurinn af þessu gæti verið að stuðla að upplýstri stjórnmálaumræðu í samfélaginu þar sem þá sést hvaða flokkar styðja mismunandi mál og varpar jafnframt ljósi á stefnu og afstöðu flokka í viðkomandi málum. Það hlýtur að vera gott fyrir lýðræðislega umræðu að vitað sé hverjir stóðu að baki einstaka málum.

Við þessari tillögu hefur ekki verið brugðist og enn eru sendar út fréttatilkynningar á borð við „borgarstjórn samþykkti“ og enn eru borgarfulltrúar sem ekki eru með atkvæðarétt spurðir „samþykktir þú þetta virkilega?“ Það ætti ekki að flækja störf upplýsingafulltrúa borgarinnar um of að segja í staðinn að meirihluti borgarstjórnar hafi samþykkt tiltekin mál gegn atkvæðum fulltrúa nánar tiltekinna flokka.

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins


Tengdar fréttir

Almannatengsl í þágu þjóðar

Ber er hver að baki nema sér almannatengil eigi. Þannig er að minnsta kosti tíðarandinn í íslensku stjórnkerfi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×