Skoðun

Kona utan garðs

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Geirfinns- og Guðmundarmálið kallar enn fram allt hið versta. Grimmileg málsvörn ríkisins í máli Guðjóns Skarphéðinssonar veldur undrun og hneykslan. Með skipan sáttanefndar var ríkið búið að viðurkenna bótarétt sinn. Eina sem út af stendur er upphæð bóta. Ekki hvernig fyrningarreglur voru fyrir áratugum og sannarlega ekki hvort Guðjón geti sjálfum sér um kennt.

Málinu getur þó ekki lokið með sáttagreiðslum til þeirra sem loks voru sýknaðir sl. haust. Eina konan í málinu liggur enn óbætt hjá garði. Erla Bolladóttir fékk mál sitt ekki tekið upp, en var þó sannarlega í hópi ungmennanna sem máttu þola fordæmalaust harðræði af hálfu kerfisins.

Erla bar sakir á saklausa menn, um það er ekki deilt. Sá framburður hennar varð til þess að þeir máttu þola langt og erfitt gæsluvarðhald og sú reynsla hefur án nokkurs vafa verið afar þungbær.

Við vitum öll að það er ekkert að marka framburð sem fenginn er fram með því harðræði sem ungmennin þurftu að þola. Þeim andlegu og líkamlegu pyntingum sem þau voru beitt. Dómstólar viðurkenna þau sannindi líka. Hvers vegna eiga þau ekki við um framburð og þar með brot Erlu Bolladóttur?

Erla Bolladóttir var ung móðir nokkurra vikna stúlkubarns þegar hún var hneppt í varðhald. Líkamlega sem andlega hefur það haft áhrif á þol hennar og styrk. Henni var haldið í stöðugum ótta við að barnið yrði tekið af henni ef framburður hennar yrði ekki þóknanlegur. Sú var sérstaða Erlu í þessu ömurlega máli.

Það kemur ekkert á óvart að áður fyrr hafi enginn tekið tillit til sérstöðu kornungu móðurinnar með nýfædda barnið. Sem sagði allt sem ætlast var til af henni til að reyna að losna, hversu óraunhæf sem sú von hennar var. En við vitum betur núna. Við vitum að Erla átti aldrei möguleika. Ekki í því andrúmslofti sem þá ríkti.

Erum við enn þar?

Höfundur er þingmaður Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×