Það hefur orðið hnignun á þessu svæði. Það eina sem vaki fyrir Jim Ratcliffe og fjárfestum á hans vegum með jarðarkaupum, að þeirra sögn, er að vernda íslenska laxinn og þar með laxinn í Norður-Atlantshafinu.
Hann ásamt sveitarfélögum á svæðinu vilja að árnar og laxinn verði sjálfbær en talið er að laxastofninn nú sé ekki nema fjórðungur af því sem hann var í kringum 1970, en flestar tegundir sem hafa orðið slíkri hnignun hafa verið flokkaðar í útrýmingarhættu. Fjölmiðlamönnum var boðið í dag að kynnast verkefninu og skoða árnar.
Í ágúst staðfesti breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe að hann hefði fest kaup á jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði, en fyrir á hann þónokkrar jarðir á Norðausturlandi, sem sagðar eru keyptar sem hluti af uppbyggingu á sjálfbæru verndarsvæði laxa. Auk þessa jarðarkaupa er Ratcliffe meirihlutaeigandi í Veiðifélaginu Streng.

Laxastigar hjálpa til
Hluti af aðgerðum hans til verndar laxinum, sem áætlaðar eru á næstu fimm árum, snýr að því að útvíkka hrygningarsvæði laxins með byggingu nýrra laxastiga í Hafralónsá, Hofsá og Miðfjarðará í Vopnafirði. Þá er fyrirhuguð umfangsmikil slepping á frjóvguðum hrognum í þessum ám, auk Selár. Verður það í samræmi við almenna veiðireglu ánna um að veiddum fiski sé sleppt aftur.„Það hefur verið mjög farsælt verndunarstarf stundað, sérstaklega hér, í Vopnafirði, við þessar ár hér. Við höfum takmarkað veiðiálag. Við höfum farið í það að vera með veiði og sleppa,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðfélagsins Strengs.

Vinna að gróðuruppbyggingu líka
Með þeirri uppbyggingu sem Ratcliffe vinnur að er að auki unnið gegn jarðeyðinu og bættu heilsufari vistkerfis ánna, með fjárfestingu skóga og endurheimt gróðurfars.„Skógræktarverkefnið sjáum við bara þegar tré fara að vaxa og ef það gengur allt saman og hrognagröfturinn er mældur og afraksturinn er mældur árlega og það kemur út skýrsla frá Hafrannsóknarstofnun , sem er gefin út á hverju ári, og þar má sjá árangurinn af því starfi sem hér er verið að vinna,“ segir Gísli.
Ratcliffe og Hafrannsóknarstofnun undirrituðu samkomulag um miðjan ágúst um rannsókn, sem er að fullu fjármögnuð af Ratcliffe. Rannsóknin nær til nýrra sviða vistfræði og hegðunar laxins.
Hefur umræðan um jarðakaup auðmanna skyggt á þetta verkefni?
“Maður skilur áhyggjurnar sem að hafa vaknað út af fjárfestingum á jörðum á Íslandi. Við höfum bara farið eftir þeim reglum og lögum sem gilda og höfum fengið færa vísindamenn til þess að hjálpa okkur við að stefna að því sem að við viljum gera. Það er bara það sem við ætlum að gera áfram,” segir Gísli.