Íslenski boltinn

Segja fimmtán ára son Óskars Hrafns á leið til FCK

Anton Ingi Leifsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson í leik með Gróttu í sumar.
Orri Steinn Óskarsson í leik með Gróttu í sumar. mynd/fésbókarsíða Gróttu
Hinn fimmtán ára gamli Orri Steinn Óskarsson er á leið til danska stórliðsins FCK en vefsíðan Fótbolti.net greinir frá þessu í dag.

Orri Steinn skoraði fyrsta mark Gróttu í dag er liðið vann 4-0 sigur á Haukum og tryggði sér þar með gullið í Inkasso-deildinni og sæti í Pepsi Max-deildinni á næstu leiktíð.

Orri er einungis fimmtán ára gamall en hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið sautján leiki í meistaraflokki og skorað í þeim fjögur mörk.

Hann spilaði ellefu leiki með Gróttu í Inkasso-deildinni í sumar og hans eina mark kom í leiknum mikilvæga gegn Haukum í dag.

Á síðasta ári stal hann fyrirsögnunum er hann skoraði tvö mörk í leik gegn Hetti, þá aðeins þrettán.

Orri á tíu leiki að baki fyrir U15 og U16-ára landslið Íslands og hans tölfræði er ótrúlega góð því hann hefur skorað fimmtán mörk í leikjunum tíu.

Ytra mun Orri væntanlega ganga í raðir U17 eða U19-ára lið félagsins en Kristall Máni Ingason og Hákon Arnar Haraldsson eru nú þegar í akademíu félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×