Erlent

Flúði úr fangelsi og faldi sig í helli í 17 ár

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Felustaður mannsins í Yunnan-héraði í suðvesturhluta Kína.
Felustaður mannsins í Yunnan-héraði í suðvesturhluta Kína. Mynd/lögregla í Yongshan
Lögregla í Kína handtók nýlega karlmann sem hafði haldið til í helli á flótta undan réttvísinni í 17 ár. Ábendingar í gegnum samskiptaforritið WeChat komu lögreglu á sporið í byrjun september.

Samkvæmt upplýsingum frá kínverskum lögregluyfirvöldum heitir maðurinn Song Jiang og er 63 ára. Hann var dæmdur í fangelsi fyrir mansal á konum og börnum en braust út úr fangabúðum árið 2002. Hann kom sér í kjölfarið fyrir í litlum helli og dvaldi þar, algjörlega einangraður frá umheiminum, í nær tvo áratugi.

Lögregla í Yongshan komst á snoðir um felustað mannsins, sem var í grennd við heimabæ hans í Yunnan-héraði í suðvesturhluta Kína, eftir að hafa fengið ábendingar í gegnum WeChat-aðgang sinn í byrjun september.

Leit bar engan árangur í fyrstu en hellirinn fannst að lokum með hjálp dróna. Í frétt BBC segir að maðurinn hafi verið einangraður svo lengi að hann hafi átt í miklum erfiðleikum með að tala við lögreglumenn sem komu að handtaka hann.

Þá hefur BBC eftir kínverskum fjölmiðlum að maðurinn hafi notað plastflöskur til að ná sér í vatn úr nærliggjandi á og trjágreinar til að kveikja eld. Hann hefur nú verið sendur aftur í fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×