Körfubolti

Fyrsti leikur Jakobs með KR frá oddaleiknum fræga fyrir tíu árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jakob varð Íslandsmeistari síðast þegar hann lék með KR.
Jakob varð Íslandsmeistari síðast þegar hann lék með KR. vísir/daníel
Jakob Örn Sigurðarson leikur sinn fyrsta keppnisleik fyrir KR í rúm tíu ár þegar Íslandsmeistararnir taka á móti Grindavík í 1. umferð Domino's deildar karla í körfubolta í kvöld.

Síðasti leikur Jakobs á Íslandi, áður en hann hélt til Svíþjóðar í atvinnumennsku, var einmitt með KR gegn Grindavík í DHL-höllinni.

Þann 13. apríl 2009 mættust KR og Grindavík í frægum oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Þá, líkt og nú, voru jafnaldrarnir Jakob, Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon í stóru hlutverki í liði KR.

DHL-höllin var troðfull þetta mánudagskvöld og stemmningin ógleymanleg. KR leiddi allan tímann en Grindavík fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn í lokasókn leiksins. En enginn Grindvíkingur skaut og sóknin rann út í sandinn. KR vann með minnsta mun, 84-83.



Jakob skoraði 22 stig í oddaleiknum fræga, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hann hitti úr fjórum af sex þriggja stiga skotum sínum. Jakob var næststigahæstur í liði KR á eftir Jóni Arnóri sem skoraði 23 stig. Oddaleikurinn var langbesti leikur Jakobs í einvíginu gegn Grindavík.

Eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með KR gekk Jakob í raðir Sundsvall Dragons þar sem hann lék í sex ár. Hann varð sænskur meistari með liðinu 2011.

Jakob lék svo með Borås Basket í fjögur ár áður en hann ákvað að koma aftur heim í KR. Þar leikur hann m.a. með bróður sínum, Matthíasi Orra, sem kom frá ÍR í sumar.

Leikur KR og Grindavíkur hefst klukkan 20:15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Að honum loknum verður svo 1. umferð Domino's deildar karla gerð upp í Domino's Körfuboltakvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×