Körfubolti

Kári: Verður spennandi að vakna í fyrramálið

Benedikt Grétarsson skrifar
Kári er aftur kominn í rautt.
Kári er aftur kominn í rautt. vísir/anton
„Það er mjög gaman að vera kominn aftur heim og sömuleiðis að vera kominn aftur á körfuboltavöllinn. Ég lék síðast keppnisleik fyrir ca. 11 mánuðum síðan og þetta síðasta ár hefur bara verið mjög langt og erfitt. Ég er búinn að læra mikið á þessum tíma og ekki síst á sjálfan mig,“ sagði Kári Jónsson eftir öruggan 105-84 sigur Hauka gegn Þór Akureyri í fyrstu umferð Dominosdeildarinnar í körfubolta. Kári var besti maður vallarins og skoraði 34 stig.

Kári hefur verið að glíma við erfið meiðsli í töluverðan tíma og því ekki úr vegi að spyrja um líkamlegt ástand kappans .„Ég er bara ágætur sko. Það vantar alveg upp á leikform og maður verður mjög þreyttur á skömmum tíma en það kemur bara hægt og rólega. Þetta eru svona hlutir sem þurfa að koma af sjálfu sér með fleiri æfingum og fleiri endurtekningum. Núna líður mér mjög vel en það verður spennandi að sjá hvernig mér líður í fyrramálið,“ sagði Kári brosandi.

Það var áberandi að Haukamenn virkuðu glaðir og jákvæðir á vellinum, ekki síst Kári.

„Fyrir okkur sem lið er það algjört lyilatriði að njóta þess að spila körfubolta og hafa gaman af hlutunum. Ef það tekst, þá gengur allt aðeins betur . Við erum alveg meðvitaðir um að við þurfum að bæta helling af hlutum en við erum að vinna í því.  Við erum með nýjan þjálfara og slatta af nýjum leikmönnum. Takturinn í liðinu kemur hægt og rólega og við þurfum að sýna þolinmæði,“ sagði þreyttur Kári að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×