Engin töfralausn til Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar 19. október 2019 08:45 „Ég á sterka minningu af því að sjá snjó í fyrsta skipti á ævinni, ég varð gagntekin af hrifningu,“ segir Donna um það þegar hún kom til Íslands fjögurra ára gömul. Fréttablaðið/Valli Donna Cruz fer með eitt af aðalhlutverkunum í nýrri íslenskri kvikmynd, Agnesi Joy, og stígur sín fyrstu skref á hvíta tjaldinu. Hún er nýkomin frá Busan í Suður-Kóreu, þar sem myndin var heimsfrumsýnd. „Þetta er meiri háttar ævintýri, ég naut þess að borða góðan asískan mat og reyndi eins og ég gat að nota frítíma til að læra undir bókfærslupróf,“ segir Donna sem stundar nám í Háskólagrunni Háskólans í Reykjavík. Kvikmyndin Agnes Joy er nýjasta kvikmynd Silju Hauksdóttur og fjallar um mæðgurnar Agnesi og Rannveigu sem eiga í útistöðum hvor við aðra. Agnes er uppreisnargjörn og krefst þess að fá að fara eigin leiðir og lætur boð og bönn sem vind um eyru þjóta. „Það var skrýtið að sjá mig á hvíta tjaldinu. Draumur sem ég hélt að myndi ekki rætast, að minnsta kosti ekki á Íslandi. Ég held að ég sé fyrsta asíska konan í aðalhlutverki í íslenskri kvikmynd. Þegar Gagga Jónsdóttir framleiðandi hringdi í mig og bauð mér að koma í áheyrnarprufu og sagði mér að um væri að ræða aðalhlutverk þá trúði ég því ekki. Ég hugsaði bara, ha? Er þetta að fara að gerast? En svo lét ég af allri vantrú og stappaði í mig stálinu. Nú væri þetta bara fyrir framan mig. Ég þyrfti bara að gefa allt í þetta,“ segir Donna. „Ég vona að þetta verði öðrum hvatning og mér finnst mikilvægt að Íslendingar af erlendum uppruna séu meira sýnilegir í kvikmyndum og sjónvarpi. Við erum hér og kvikmyndir og sjónvarp segja sögur úr samfélaginu. Spegla það – ef þú segir aðeins sögu af afmörkuðum hópi þá nærðu ekki til jafn margra. Því meiri fjölbreytileiki, því fleiri áhorfendur,“ segir Donna ákveðin.Donna og systkini hennar með foreldrum sínum, Romeo og Miriam.Henni þykir vænt um söguhetjuna sem hún leikur. Agnesi Joy. „Mér þykir mjög vænt um aðalsöguhetjuna, ég man að þegar ég var ung og týnd þá bjó ég ekki yfir sama hugrekki og Agnes Joy sem fer á móti fólki til þess að elta drauminn. Hún er djörf og skemmtileg og ákveðin,“ segir Donna. Kvikmyndin fjallar um Rannveigu, sem Katla Margrét leikur. Hún hefur að undanförnu upplifað kulnun í bæði starfi og einkalífi. Rannveig á í stöðugum útistöðum við dóttur sína Agnesi sem Donna Cruz leikur. Hún er uppreisnargjörn og krefst þess að fá að fara sínar eigin leiðir þrátt fyrir boð, bönn og móðurlegar ráðleggingar. En með aðalhlutverk auk hennar og Kötlu fara þeir Þorsteinn Bachmann, Björn Hlynur Haraldsson og rapparinn Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli.Úti í snjónum á nærfötunum Donna er 25 ára gömul og fluttist hingað til lands frá Filippseyjum með foreldrum sínum þegar hún var fjögurra ára gömul. Það var í janúarmánuði árið 1999 og landið snævi þakið. „Ég á sterka minningu af því að sjá snjó í fyrsta skipti á ævinni, ég varð gagntekin af hrifningu og fylltist eins konar lotningu. Það er til mynd af mér úti í snjónum á nærfötunum í gúmmístígvélum að kynnast þessu framandi fyrirbæri. Ég trúði ekki mömmu sem sagði mér að snjórinn væri kaldur,“ segir Donna. Donna flutti fljótlega í Fellahverfið með foreldrum sínum, Miriam og Romeo, og tveimur yngri systkinum. „Við erum afskaplega náin systkini. Systir mín er einu ári yngri, bróðir minn þremur árum yngri. Amma hafði flutt nokkrum árum áður til Íslands og vann í þvottahúsi. Nú búa öll börnin hennar og barnabörn hér. Ég byrjaði í grunnskóla, Fellaskóla. Þá var ég ein af fáum börnum í skólanum af erlendum uppruna. Við vorum held ég tvær sem vorum asískar í árgangnum. Nú skilst mér að meira en helmingur nemenda skólans sé af erlendum uppruna. Ég fann mikið fyrir því að vera öðruvísi og var strítt mikið fyrstu árin og stundum lögð í einelti. Ég kom með nesti að heiman sem börnunum fannst skrýtið og lykta skringilega. Ég kom oft með sérstakan filippseyskan kjúklingarétt með grænmeti, chicken adobo. En bekkjarsystkini mín voru hins vegar hrifin af því þegar ég kom með Lumbia, sem eru vorrúllur,“ segir hún og hlær og segir að svo virðist sem þau hafi helst kannast við þann rétt. Donna segist hafa fundið til vanlíðanar þegar hún var lítil vegna stríðninnar. Vanlíðanin hafi því miður fengið útrás með neikvæðum hætti þegar hún varð eldri. „Mér þykir leitt að segja frá því en ég lagði aðra stelpu í einelti nokkrum árum seinna. Ég vissi ekki að ég væri að gera það og áttaði mig ekki á því fyrr en ég var orðin átján ára gömul og sat í uppeldisfræðitíma í menntaskóla. Ég sá skýrt samhengi á milli eineltisins sem ég varð fyrir og þess hvernig ég hagaði mér seinna. En það er engin afsökun og um tvítugt fann ég hana og bað hana afsökunar. Hún sagðist vera búin að gleyma sumu af þessi. En það hafði ég ekki gert. Ég vildi ekki að hún tæki með sér þessa vanlíðan eins og ég gerði. Einelti situr lengi í manni og getur valdið hegðun sem heldur manni í vítahring. Ég gerði það sem ég þráði sjálf. Ég vildi nefnilega sjálf fá afsökunarbeiðni og tækifæri til að fyrirgefa gerendunum. Sem betur fer er unnið markvisst gegn einelti í skólum í dag og börnum hjálpað að skilja og sjá í hverju það felst.“Fjölskyldan hefur búið hér frá því stuttu fyrir síðustu aldamót.Fáar vestrænar fyrirmyndir Donnu hefur langað til að verða leikkona frá því hún var lítil og leit upp til filippseyskra leikkvenna. Hún hafði ekki margar fyrirmyndir í Hollywood. „Þegar við fórum til Filippseyja þá keyptum við alltaf mikið af kvikmyndum á dvd-diskum. Það var líka verslun hér á Íslandi þar sem hægt var að leigja filippseyskar kvikmyndir sem var dásamlegt. En fyrirmyndirnar í Hollywood voru fáar, kannski helst Lucy Liu, ég hélt mikið upp á hana. Í dag er þetta svo breytt og það er hægt að sjá fjölbreyttar kvikmyndir og sjónvarpsþætti frá öllum heimshornum á Netflix. Heimurinn er ekki jafn stór og ókunnur. Hann er opnari og minni í þeim skilningi að við tengjumst betur,“ segir Donna og segir íslenskt samfélag einnig opnara en áður. „Ísland hefur líka breyst mjög mikið og í rétta átt. Þótt það sé ekki að gerast jafn hratt og ég myndi óska mér.“ Donna bjó ekki yfir mikilli reynslu af leiklist þegar hún tók að sér hlutverkið. „Þannig að þegar ég fékk hlutverkið varð ég stressuð. Ég átti að leika á móti reynslumiklum leikurum. En ég fékk einkatíma hjá Þorsteini Bachmann og það hjálpaði mér mikið, ég er þakklát fyrir að hafa fengið þá kennslu.“ Hún hefur þó reynslu af því að koma fram fyrir stóran hóp fólks. Hún tók þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ísland og vann þar titilinn vinsælasta stúlkan. Í kjölfarið fór hún til Filippseyja og keppti í Miss Asia Pacific International fyrir hönd Íslands. „Það var erfiðara en að taka þátt í keppninni hér heima. Þau bjuggust við því að af því að ég kom frá Íslandi væri ég hvít. Ég er íslensk, þó að ég hafi ekki hefðbundið íslenskt útlit. Ég elska Filippseyjar en þau eru á eftir í þessum efnum. Ég stunda mikla hreyfingu, fer út að hlaupa, hef hlaupið Reykjavíkurmaraþon þrjú ár í röð og lyfti lóðum. En skipuleggjendur fegurðarsamkeppninnar báðu mig að draga úr æfingum þar svo ég yrði ekki of mössuð á lokakvöldinu. Ég sagði bara nei! Enda bara gamaldags vitleysa,“ segir Donna og hlær.Systkinin voru og eru mjög náin.Erfitt að hætta í Vottum Jehóva Fjölskylda Donnu er mjög trúuð. Amma hennar og mamma eru í Vottum Jehóva. Donna tók þátt í starfinu til fimmtán ára aldurs og gekk á milli húsa á laugardögum og predikaði. „Ég ólst upp sem Vottur Jehóva og var virk í söfnuðinum frá því að ég var sex ára til fimmtán ára. Það var messa þrisvar í viku. Á laugardögum gengum við á milli húsa og predikuðum og aðalmessan var á sunnudögum. Þegar ég varð fimmtán ára gömul fann ég að ég gat ekki tekið þátt í þessu lengur. Það var svo margt sem ég gat ekki verið sammála af öllu hjarta. Ég ákvað því að hætta og gat það af því ég var ekki skírð inn í söfnuðinn. Amma varð ekki ánægð og talaði ekki við mig í marga mánuði. Það var ofsalega erfitt því við erum mjög nánar, reyndar ólst ég mikið til upp hjá henni. Að lokum tókst mér að ná til hennar. Ég sagði við hana: Guð sér allt og veit hvað er í hjarta mínu. Hann veit að ég vil ekki vera hér. Hún tók þessum rökum og skildi þau og við gátum sem betur fer náð aftur saman. Hún er mér mjög mikilvæg, er stolt af mér og kom með kærastanum mínum á frumsýninguna.“ Kærasti Donnu er Ari Steinn Skarphéðinsson. „Við keyptum okkur íbúð í Bryggjuhverfinu á síðasta ári og líkar vel þar. Og við fengum okkur kött. Ég þurfti svolítið að sannfæra hann um að það væri góð hugmynd því ég er með ofnæmi,“ segir Donna og hlær.„Það var messa þrisvar í viku. Á laugardögum gengum við á milli húsa og predikuðum og aðalmessan var á sunnudögum,“ segir Donna um árin í Vottum Jehóva.Fréttablaðið/ValliAlvarlegt þunglyndi Donna horfir björtum augum til framtíðar og segir námið sem hún stundar í Háskólagrunni Háskólans í Reykjavík hafa haft góð áhrif á sjálfsmyndina. „Ég hætti í menntaskóla þegar ég var um það bil átján ára gömul. Ég var að glíma við svo mikið þunglyndi að ég réð ekki við námið. Í HR fæ ég stuðning og sé fram á að geta klárað skólann. Nokkuð sem ég trúði ekki áður að ég gæti. Ég fór ekki að takast á við þunglyndið að ráði fyrr en fyrir fáeinum árum,“ segir hún. Þunglyndið var alvarlegt. „Fáum sem glíma við alvarlegt þunglyndi tekst að klára menntaskóla og það að geta það ekki eykur á vandann. Þegar ég var sautján ára gerði ég tilraun til sjálfsvígs. Mamma sendi mig þá til Filippseyja, henni fannst góð hugmynd að láta mig skipta um umhverfi. Það var í raun alveg rétt hjá henni. Ég var þar í þrjá mánuði og hætti að hugsa um þetta smám saman. Ég vann mikið. Svo þegar ég kom aftur til Íslands kynntist ég fyrrverandi kærastanum mínum og varð upptekin af því. Það má segja að þunglyndið hafi legið í dvala. En það kemur alltaf aftur og í sumar leitaði ég mér fyrst sálfræðihjálpar. Það er mjög erfitt að byrja í skóla eftir að hafa verið á vinnumarkaði í sjö ár. En í skólanum eru allir á sama stað, ég á til dæmis vinkonu í bekknum sem er 20 árum eldri. Og mér finnst svo dýrmætt að fá að hitta fólk sem gefst ekki upp,“ segir Donna og segist hafa áttað sig á mikilvægi þess að glíma við einn dag í einu en hafa á sama tíma góða trú á því að allt fari vel. „Ég veit að það er engin töfralausn til, ég þarf bara að reyna að lifa góðu lífi og gera hluti sem ég veit að styrkja mig. Hluti af því er að fara í skóla. Láta drauma sína rætast eins og ég gerði með því að leika í kvikmynd. Þetta er krefjandi en hefur góð áhrif,“ segir Donna. Birtist í Fréttablaðinu Trúmál Viðtal Mest lesið Vildi milljón pund, bauðst hálf og afþakkaði boðið Lífið Búa í einstakri þakíbúð í miðborginni en Halli keypti líka æskuheimilið sitt á móti Lífið „Er þetta kannski eitthvað sem þú vilt senda okkur í tölvupósti“ Lífið Ilmaðu eins og frambjóðendur Lífið Ungfrú Danmörk fegurst allra Lífið Hundrað ára viðkvæmni Íslendinga: „Leið daglega yfir 40 til 50 manns“ Bíó og sjónvarp Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Lífið Aðventan með Lindu Ben: Pakkaskraut sem þú borðar Jól Edrú í eitt ár Lífið Bjarki og Rósa orðin hjón Lífið Fleiri fréttir Ilmaðu eins og frambjóðendur Vildi milljón pund, bauðst hálf og afþakkaði boðið „Er þetta kannski eitthvað sem þú vilt senda okkur í tölvupósti“ Búa í einstakri þakíbúð í miðborginni en Halli keypti líka æskuheimilið sitt á móti Ungfrú Danmörk fegurst allra Lára og Jens verða mamma og pabbi Brjáluð stemning í Eldhúspartýi FM957 Annar bakaradrengur kominn í heiminn Stjörnulífið: „Það er gott að vera ekki í feluleik og flótta frá sjálfum sér“ Edrú í eitt ár Sigríður Margrét orðin amma Bjarki og Rósa orðin hjón Skotheldar hugmyndir að góðri hlustun Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Hversdagslegir hlutir urðu óyfirstíganlegir Krakkatían: Fossar, dýr og prinsessur Greitt úr leyfisvandræðum og tónleikarnir fara fram í kvöld Endurgreiða alla miða ef tónleikahald tekst ekki í kvöld „Ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir“ Frelsaði húsgögn Brynhildar Fréttatían: Mannlíf, ferðamenn og Trump Hundruðum svekktra tónleikagesta vísað frá Hvalasafninu Skellti sér á djammið Segir fjölskylduna flutta Fáir sáu íslenskar bíómyndir sem fengu 350 milljónir króna í styrk Stílhreinn glæsileiki og svartur marmari á Nesinu „Er ekki að fara fram á það lifa lífinu í bómull“ Conan O'Brien verður kynnir á Óskarnum Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman „Nýja heimsskipanin:“ Leynileg áætlun um heimsyfirráð í undirbúningi? Sjá meira
Donna Cruz fer með eitt af aðalhlutverkunum í nýrri íslenskri kvikmynd, Agnesi Joy, og stígur sín fyrstu skref á hvíta tjaldinu. Hún er nýkomin frá Busan í Suður-Kóreu, þar sem myndin var heimsfrumsýnd. „Þetta er meiri háttar ævintýri, ég naut þess að borða góðan asískan mat og reyndi eins og ég gat að nota frítíma til að læra undir bókfærslupróf,“ segir Donna sem stundar nám í Háskólagrunni Háskólans í Reykjavík. Kvikmyndin Agnes Joy er nýjasta kvikmynd Silju Hauksdóttur og fjallar um mæðgurnar Agnesi og Rannveigu sem eiga í útistöðum hvor við aðra. Agnes er uppreisnargjörn og krefst þess að fá að fara eigin leiðir og lætur boð og bönn sem vind um eyru þjóta. „Það var skrýtið að sjá mig á hvíta tjaldinu. Draumur sem ég hélt að myndi ekki rætast, að minnsta kosti ekki á Íslandi. Ég held að ég sé fyrsta asíska konan í aðalhlutverki í íslenskri kvikmynd. Þegar Gagga Jónsdóttir framleiðandi hringdi í mig og bauð mér að koma í áheyrnarprufu og sagði mér að um væri að ræða aðalhlutverk þá trúði ég því ekki. Ég hugsaði bara, ha? Er þetta að fara að gerast? En svo lét ég af allri vantrú og stappaði í mig stálinu. Nú væri þetta bara fyrir framan mig. Ég þyrfti bara að gefa allt í þetta,“ segir Donna. „Ég vona að þetta verði öðrum hvatning og mér finnst mikilvægt að Íslendingar af erlendum uppruna séu meira sýnilegir í kvikmyndum og sjónvarpi. Við erum hér og kvikmyndir og sjónvarp segja sögur úr samfélaginu. Spegla það – ef þú segir aðeins sögu af afmörkuðum hópi þá nærðu ekki til jafn margra. Því meiri fjölbreytileiki, því fleiri áhorfendur,“ segir Donna ákveðin.Donna og systkini hennar með foreldrum sínum, Romeo og Miriam.Henni þykir vænt um söguhetjuna sem hún leikur. Agnesi Joy. „Mér þykir mjög vænt um aðalsöguhetjuna, ég man að þegar ég var ung og týnd þá bjó ég ekki yfir sama hugrekki og Agnes Joy sem fer á móti fólki til þess að elta drauminn. Hún er djörf og skemmtileg og ákveðin,“ segir Donna. Kvikmyndin fjallar um Rannveigu, sem Katla Margrét leikur. Hún hefur að undanförnu upplifað kulnun í bæði starfi og einkalífi. Rannveig á í stöðugum útistöðum við dóttur sína Agnesi sem Donna Cruz leikur. Hún er uppreisnargjörn og krefst þess að fá að fara sínar eigin leiðir þrátt fyrir boð, bönn og móðurlegar ráðleggingar. En með aðalhlutverk auk hennar og Kötlu fara þeir Þorsteinn Bachmann, Björn Hlynur Haraldsson og rapparinn Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli.Úti í snjónum á nærfötunum Donna er 25 ára gömul og fluttist hingað til lands frá Filippseyjum með foreldrum sínum þegar hún var fjögurra ára gömul. Það var í janúarmánuði árið 1999 og landið snævi þakið. „Ég á sterka minningu af því að sjá snjó í fyrsta skipti á ævinni, ég varð gagntekin af hrifningu og fylltist eins konar lotningu. Það er til mynd af mér úti í snjónum á nærfötunum í gúmmístígvélum að kynnast þessu framandi fyrirbæri. Ég trúði ekki mömmu sem sagði mér að snjórinn væri kaldur,“ segir Donna. Donna flutti fljótlega í Fellahverfið með foreldrum sínum, Miriam og Romeo, og tveimur yngri systkinum. „Við erum afskaplega náin systkini. Systir mín er einu ári yngri, bróðir minn þremur árum yngri. Amma hafði flutt nokkrum árum áður til Íslands og vann í þvottahúsi. Nú búa öll börnin hennar og barnabörn hér. Ég byrjaði í grunnskóla, Fellaskóla. Þá var ég ein af fáum börnum í skólanum af erlendum uppruna. Við vorum held ég tvær sem vorum asískar í árgangnum. Nú skilst mér að meira en helmingur nemenda skólans sé af erlendum uppruna. Ég fann mikið fyrir því að vera öðruvísi og var strítt mikið fyrstu árin og stundum lögð í einelti. Ég kom með nesti að heiman sem börnunum fannst skrýtið og lykta skringilega. Ég kom oft með sérstakan filippseyskan kjúklingarétt með grænmeti, chicken adobo. En bekkjarsystkini mín voru hins vegar hrifin af því þegar ég kom með Lumbia, sem eru vorrúllur,“ segir hún og hlær og segir að svo virðist sem þau hafi helst kannast við þann rétt. Donna segist hafa fundið til vanlíðanar þegar hún var lítil vegna stríðninnar. Vanlíðanin hafi því miður fengið útrás með neikvæðum hætti þegar hún varð eldri. „Mér þykir leitt að segja frá því en ég lagði aðra stelpu í einelti nokkrum árum seinna. Ég vissi ekki að ég væri að gera það og áttaði mig ekki á því fyrr en ég var orðin átján ára gömul og sat í uppeldisfræðitíma í menntaskóla. Ég sá skýrt samhengi á milli eineltisins sem ég varð fyrir og þess hvernig ég hagaði mér seinna. En það er engin afsökun og um tvítugt fann ég hana og bað hana afsökunar. Hún sagðist vera búin að gleyma sumu af þessi. En það hafði ég ekki gert. Ég vildi ekki að hún tæki með sér þessa vanlíðan eins og ég gerði. Einelti situr lengi í manni og getur valdið hegðun sem heldur manni í vítahring. Ég gerði það sem ég þráði sjálf. Ég vildi nefnilega sjálf fá afsökunarbeiðni og tækifæri til að fyrirgefa gerendunum. Sem betur fer er unnið markvisst gegn einelti í skólum í dag og börnum hjálpað að skilja og sjá í hverju það felst.“Fjölskyldan hefur búið hér frá því stuttu fyrir síðustu aldamót.Fáar vestrænar fyrirmyndir Donnu hefur langað til að verða leikkona frá því hún var lítil og leit upp til filippseyskra leikkvenna. Hún hafði ekki margar fyrirmyndir í Hollywood. „Þegar við fórum til Filippseyja þá keyptum við alltaf mikið af kvikmyndum á dvd-diskum. Það var líka verslun hér á Íslandi þar sem hægt var að leigja filippseyskar kvikmyndir sem var dásamlegt. En fyrirmyndirnar í Hollywood voru fáar, kannski helst Lucy Liu, ég hélt mikið upp á hana. Í dag er þetta svo breytt og það er hægt að sjá fjölbreyttar kvikmyndir og sjónvarpsþætti frá öllum heimshornum á Netflix. Heimurinn er ekki jafn stór og ókunnur. Hann er opnari og minni í þeim skilningi að við tengjumst betur,“ segir Donna og segir íslenskt samfélag einnig opnara en áður. „Ísland hefur líka breyst mjög mikið og í rétta átt. Þótt það sé ekki að gerast jafn hratt og ég myndi óska mér.“ Donna bjó ekki yfir mikilli reynslu af leiklist þegar hún tók að sér hlutverkið. „Þannig að þegar ég fékk hlutverkið varð ég stressuð. Ég átti að leika á móti reynslumiklum leikurum. En ég fékk einkatíma hjá Þorsteini Bachmann og það hjálpaði mér mikið, ég er þakklát fyrir að hafa fengið þá kennslu.“ Hún hefur þó reynslu af því að koma fram fyrir stóran hóp fólks. Hún tók þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ísland og vann þar titilinn vinsælasta stúlkan. Í kjölfarið fór hún til Filippseyja og keppti í Miss Asia Pacific International fyrir hönd Íslands. „Það var erfiðara en að taka þátt í keppninni hér heima. Þau bjuggust við því að af því að ég kom frá Íslandi væri ég hvít. Ég er íslensk, þó að ég hafi ekki hefðbundið íslenskt útlit. Ég elska Filippseyjar en þau eru á eftir í þessum efnum. Ég stunda mikla hreyfingu, fer út að hlaupa, hef hlaupið Reykjavíkurmaraþon þrjú ár í röð og lyfti lóðum. En skipuleggjendur fegurðarsamkeppninnar báðu mig að draga úr æfingum þar svo ég yrði ekki of mössuð á lokakvöldinu. Ég sagði bara nei! Enda bara gamaldags vitleysa,“ segir Donna og hlær.Systkinin voru og eru mjög náin.Erfitt að hætta í Vottum Jehóva Fjölskylda Donnu er mjög trúuð. Amma hennar og mamma eru í Vottum Jehóva. Donna tók þátt í starfinu til fimmtán ára aldurs og gekk á milli húsa á laugardögum og predikaði. „Ég ólst upp sem Vottur Jehóva og var virk í söfnuðinum frá því að ég var sex ára til fimmtán ára. Það var messa þrisvar í viku. Á laugardögum gengum við á milli húsa og predikuðum og aðalmessan var á sunnudögum. Þegar ég varð fimmtán ára gömul fann ég að ég gat ekki tekið þátt í þessu lengur. Það var svo margt sem ég gat ekki verið sammála af öllu hjarta. Ég ákvað því að hætta og gat það af því ég var ekki skírð inn í söfnuðinn. Amma varð ekki ánægð og talaði ekki við mig í marga mánuði. Það var ofsalega erfitt því við erum mjög nánar, reyndar ólst ég mikið til upp hjá henni. Að lokum tókst mér að ná til hennar. Ég sagði við hana: Guð sér allt og veit hvað er í hjarta mínu. Hann veit að ég vil ekki vera hér. Hún tók þessum rökum og skildi þau og við gátum sem betur fer náð aftur saman. Hún er mér mjög mikilvæg, er stolt af mér og kom með kærastanum mínum á frumsýninguna.“ Kærasti Donnu er Ari Steinn Skarphéðinsson. „Við keyptum okkur íbúð í Bryggjuhverfinu á síðasta ári og líkar vel þar. Og við fengum okkur kött. Ég þurfti svolítið að sannfæra hann um að það væri góð hugmynd því ég er með ofnæmi,“ segir Donna og hlær.„Það var messa þrisvar í viku. Á laugardögum gengum við á milli húsa og predikuðum og aðalmessan var á sunnudögum,“ segir Donna um árin í Vottum Jehóva.Fréttablaðið/ValliAlvarlegt þunglyndi Donna horfir björtum augum til framtíðar og segir námið sem hún stundar í Háskólagrunni Háskólans í Reykjavík hafa haft góð áhrif á sjálfsmyndina. „Ég hætti í menntaskóla þegar ég var um það bil átján ára gömul. Ég var að glíma við svo mikið þunglyndi að ég réð ekki við námið. Í HR fæ ég stuðning og sé fram á að geta klárað skólann. Nokkuð sem ég trúði ekki áður að ég gæti. Ég fór ekki að takast á við þunglyndið að ráði fyrr en fyrir fáeinum árum,“ segir hún. Þunglyndið var alvarlegt. „Fáum sem glíma við alvarlegt þunglyndi tekst að klára menntaskóla og það að geta það ekki eykur á vandann. Þegar ég var sautján ára gerði ég tilraun til sjálfsvígs. Mamma sendi mig þá til Filippseyja, henni fannst góð hugmynd að láta mig skipta um umhverfi. Það var í raun alveg rétt hjá henni. Ég var þar í þrjá mánuði og hætti að hugsa um þetta smám saman. Ég vann mikið. Svo þegar ég kom aftur til Íslands kynntist ég fyrrverandi kærastanum mínum og varð upptekin af því. Það má segja að þunglyndið hafi legið í dvala. En það kemur alltaf aftur og í sumar leitaði ég mér fyrst sálfræðihjálpar. Það er mjög erfitt að byrja í skóla eftir að hafa verið á vinnumarkaði í sjö ár. En í skólanum eru allir á sama stað, ég á til dæmis vinkonu í bekknum sem er 20 árum eldri. Og mér finnst svo dýrmætt að fá að hitta fólk sem gefst ekki upp,“ segir Donna og segist hafa áttað sig á mikilvægi þess að glíma við einn dag í einu en hafa á sama tíma góða trú á því að allt fari vel. „Ég veit að það er engin töfralausn til, ég þarf bara að reyna að lifa góðu lífi og gera hluti sem ég veit að styrkja mig. Hluti af því er að fara í skóla. Láta drauma sína rætast eins og ég gerði með því að leika í kvikmynd. Þetta er krefjandi en hefur góð áhrif,“ segir Donna.
Birtist í Fréttablaðinu Trúmál Viðtal Mest lesið Vildi milljón pund, bauðst hálf og afþakkaði boðið Lífið Búa í einstakri þakíbúð í miðborginni en Halli keypti líka æskuheimilið sitt á móti Lífið „Er þetta kannski eitthvað sem þú vilt senda okkur í tölvupósti“ Lífið Ilmaðu eins og frambjóðendur Lífið Ungfrú Danmörk fegurst allra Lífið Hundrað ára viðkvæmni Íslendinga: „Leið daglega yfir 40 til 50 manns“ Bíó og sjónvarp Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Lífið Aðventan með Lindu Ben: Pakkaskraut sem þú borðar Jól Edrú í eitt ár Lífið Bjarki og Rósa orðin hjón Lífið Fleiri fréttir Ilmaðu eins og frambjóðendur Vildi milljón pund, bauðst hálf og afþakkaði boðið „Er þetta kannski eitthvað sem þú vilt senda okkur í tölvupósti“ Búa í einstakri þakíbúð í miðborginni en Halli keypti líka æskuheimilið sitt á móti Ungfrú Danmörk fegurst allra Lára og Jens verða mamma og pabbi Brjáluð stemning í Eldhúspartýi FM957 Annar bakaradrengur kominn í heiminn Stjörnulífið: „Það er gott að vera ekki í feluleik og flótta frá sjálfum sér“ Edrú í eitt ár Sigríður Margrét orðin amma Bjarki og Rósa orðin hjón Skotheldar hugmyndir að góðri hlustun Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Hversdagslegir hlutir urðu óyfirstíganlegir Krakkatían: Fossar, dýr og prinsessur Greitt úr leyfisvandræðum og tónleikarnir fara fram í kvöld Endurgreiða alla miða ef tónleikahald tekst ekki í kvöld „Ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir“ Frelsaði húsgögn Brynhildar Fréttatían: Mannlíf, ferðamenn og Trump Hundruðum svekktra tónleikagesta vísað frá Hvalasafninu Skellti sér á djammið Segir fjölskylduna flutta Fáir sáu íslenskar bíómyndir sem fengu 350 milljónir króna í styrk Stílhreinn glæsileiki og svartur marmari á Nesinu „Er ekki að fara fram á það lifa lífinu í bómull“ Conan O'Brien verður kynnir á Óskarnum Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman „Nýja heimsskipanin:“ Leynileg áætlun um heimsyfirráð í undirbúningi? Sjá meira