Skoðun

Vél, vík burt!

Arnar Tómas Valgeirsson skrifar
Sjálfsafgreiðslukassar dúkkuðu nýverið upp í völdum verslunum þar sem óöruggum viðskiptavinum býðst loks að kaupa frosnar máltíðir og bollanúðlur án þess að verða fyrir dómhörðu augliti afgreiðslufólks. Þrátt fyrir stöku byrjendamistök virðast flestir sáttir við nýjungina sem hefur létt talsvert á biðröðunum sem voru farnar að teygja sig langleiðina að malakoffinu í áleggsdeildinni. Þó taka ekki allir þessu fagnaðarerindi fagnandi.

Sumir vilja meina að viðskiptavinurinn taki á sig meira álag að ástæðulausu og aðrir segja að vélrænt viðmótið geri gráan hversdagsleikann þeim mun grárri. Það er kannski eitthvað til í þessum kvörtunum en sú allra skemmtilegasta er þó að kassarnir steli störfum af fólki.

Það væri þá kannski rétt að leggja sjálfsafgreiðslukassana niður svo atvinnuleysi rjúki ekki upp úr öllu valdi. Því næst getum við safnað liði, sungið lagið úr Vesalingunum og rifið niður sjálfvirkar bílaþvottastöðvar, en það hlýtur að vera hægt að ráða heilan haug af fólki í þau störf sem bölvaðir vélkústarnir hafa sópað að sér. Því næst liggur beint við að ráðast að sjálfsölum með sleggjum og keðjusögum svo hægt sé að fá fólk frekar en róbóta til að selja manni súkkulaðistykkin og orkudrykkina.

Að lokum getum við rifið símsvarana úr sambandi og fengið alvöru manneskju með kíghósta og þunglyndi til að segja okkur að við séum númer sautján í röðinni.

Atvinnuleysið núll prósent. Ísland, best í heimi!




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×