Skoðun

Frístund fyrir fötluð ungmenni í Garðabæ

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar
Það er afar ánægjulegt fyrir bæjarfulltrúa og hvað þá þann sem er í minnihluta að sjá að brasið í pólitíkinni geti borið árangur. Tillaga okkar í Garðabæjarlistanum um frístund fyrir fötluð grunnskólaungmenni frá 10 ár aldri er orðin að veruleika í Garðabæ. Úrræðið er gríðarlega mikilvægt bæði fyrir ungmennin en ekki síður aðstandendur þeirra. Að geta tryggt barninu sínu frístundastarf í nærsamfélaginu í sinni heimabyggð skiptir máli. Líka fyrir fötluð ungmenni. 

Það var því einstaklega gleðilegt að fá tækifæri til þess að reka inn nefið og sjá hversu bjart og hlýlegt er um að litast og finna hversu vel er unnið að því að búa svo um þessa mikilvægu þjónustu að ungmennunum sé mætt af alúð og af fagmennsku. Að heyra af samstarfi við Garðaskóla er  einstaklega ánægjulegt og finna kraftinn sem gustar af þeim sem þarna starfa. Að nýta tækifærið til þess einmitt að gera betur og setja metnað í faglegt og uppbyggilegt starf fyrir fötluð ungmenni er til mikillar eftirbreytni. Gríðarlega mikilvægt og mikið framfaraskref fyrir Garðabæ. 

Það er síðan án ef allra dýrmætast fyrir einmitt þá sem það reyna að finna í verki að sveitarfélagið sýni dug og bjóði upp á þá þjónustu sem íbúar þess þurfa á að halda. í heimabyggð.

Fyrir fötluð ungmenni og aðstandendur þeirra skiptir slík þjónusta miklu máli. Við eigum að vinna að því öll sem eitt þvert á pólitískar línur að búa svo um að sveitarfélagið þjónusti alla íbúa. Og bjóði með þeim hætti alla velkomna í samfélagið og geri þeim kleift að vaxa og dafna á sínum forsendum. 

Frístund fyrir fötluð ungmenni er svo sannarlega einn liður í þess háttar þjónustu. 

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×