Will Ferrell og Pierce Brosnan á ferð
Svo segir í tilkynningu frá Kristjáni Þór Magnússyni sveitarstjóra sem hann birti nú fyrir skömmu á vef Norðurþings. Allt er á öðrum endanum í Húsavík en að sögn sveitarstjórans munu um 250 manns mæta sérstaklega til Húsavíkur við vinnslu myndarinnar en tökur standa yfir alla helgina eða frá föstudegi 11. október til mánudags þess 14. Meðal þeirra sem spranga um bæinn eru þeir Will Ferrell, sem lenti Akureyri í dag, kom með einkaþotu frá Skotlandi samkvæmt heimildum Vísis og svo leikarinn Pierce Brosnan.„Um einstakan atburð er að ræða sem allar líkur eru á að hafi mikil og jákvæð áhrif á ferðamennsku inn á svæðið til næstu ára ef vel tekst til,“ segir Kristján Þór kátur. Mikið sé því í húfi og vert að íbúar standi og leggi hönd á plóg.
Stranglega bannað að taka myndir á tökustað
„Fjöldi íbúa úr samfélaginu kemur að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Sem dæmi má nefna að íbúar hafa leigt eignir sínar tímabundið til verkefnisins, húsvískir aukaleikarar standa vaktina í nokkrum senum og enn aðrir aðstoða með ýmiskonar verkefni þessa daga sem tökurnar standa yfir.“Í tilkynningunni er tekið fram að alls engar myndir af kvikmyndatökustöðum, leikurum og öðru á tökustað verði teknar og birtar á samfélagsmiðlum. Við því er strangt bann og þá eru allir drónar bannaðir á Húsavík meðan á tökum stendur.