Fótbolti

Segir Mourinho ekki á leið til Dortmund

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mourinho bíður enn eftir rétta stjórastarfinu.
Mourinho bíður enn eftir rétta stjórastarfinu. vísir/getty
Michael Zorc, íþróttastjóri Borussia Dortmund, segir ekkert hæft í sögusögnum þess efnis að José Mourinho taki við liðinu á næstunni.

Lucien Favre, knattspyrnustjóri Dortmund, þykir valtur í sessi, þrátt fyrir að hafa skrifað undir nýjan samning við félagið í sumar.

Mourinho hefur verið orðaður við Dortmund og hann ku vera byrjaður að læra þýsku. Mourinho hefur verið án stjórastarfs síðan hann var rekinn frá Manchester United undir lok síðasta árs.

Zorc segir hins vegar að Favre sé öruggur í starfi og Mourinho sé ekki á leið til Dortmund.

„Það er ekkert til í þessum orðrómi um Mourinho. Við höfum ekki rætt um að skipta um stjóra. Við erum hæstánægðir með Lucien Favre,“ sagði Zorc við Sky.

Dortmund kastaði frá sér níu stiga forskoti á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu fjórum deildarleikjum sínum og tapaði fyrir Inter, 2-0, í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn.

Á morgun mætir Dortmund Schalke í grannaslag í þýsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×