Skoðun

Vakta­vinna er á­lags­þáttur

Sandra Bryndísardóttir Franks skrifar
Sjúkraliðar krefjast þess að vinnuvikan verði stytt í 35 klukkustundir og enn meira fyrir vaktavinnufólk.

Viðfangsefni sjúkraliða eru mjög gefandi og fjölbreytt, en þau geta reynt á og verið virkilega krefjandi. Starfsaðstæður eru oft erfiðar og álagið meira en gott þykir. Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustunni, en launakjörin eru óviðunandi.

Tæplega 90% sjúkraliða vinna í vaktavinnu, en rannsóknir sýna að vaktavinna er sérstakur áhættuþáttur varðandi alvarleg veikindi, sem brýnt er að taka tillit til.  Heilbrigðisstarfsfólk  er einnig útsettara fyrir veikindum og þá sérstaklega sjúkraliðar sem sinna nærhjúkrun. Í þessu sambandi er ástæða til að benda á að veikindatíðni sjúkraliða á Landspítalanum árið 2018 reyndist um 11% eða 29 vinnudagar á ári. Til samanburðar reyndist veikindatíðni annarra starfsstétta spítalans vera að meðaltali um 6% og veikindatíðni vaktavinnustarfsmanna í áliðna er undir 3,8%, enda hafa  þeir mun minni vinnuskyldu. Það er meðal annars vegna alls þessa sem stytta þarf vinnuviku vaktavinnufólks meira en vinnuviku þeirra sem eru í dagvinnu.

Sjúkraliðar þekkja afleiðingar af löngum vinnutíma, krefjandi vaktavinnu, miklu vinnuálagi og skertri hvíld, sem geta verið óafturkræfar og haft slæm áhrif á heilsufar og fjölskyldulíf. Meginmarkmið með að stytta vinnutíma snýr að bættum starfsskilyrðum, þannig að sjúkraliðum og öðrum sé gert kleift að vinna fullt starf, án þess að gjalda fyrir það með minnkandi starfsþreki og skertu fjölskyldulífi.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Greinin hefur verið uppfærð.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×