Píratar í Kópavogi höfnuðu samgöngusáttmálanum á höfuðborgarsvæðinu í vefatkvæðagreiðslu. Bæjarfulltrúi flokksins sat hjá við afgreiðslu málsins á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag.
Píratar í Reykjavík, sem eru í meirihluta, greiddu atkvæði með sáttmálanum en skiluðu sérbókun. Í bókuninni segir að mikilvægt sé að útfærsla „sérstakrar fjármögnunar“ í samkomulaginu verði opnari og aðgengilegri. Einnig að ekki verði vegið að þeim tekjulægstu í samfélaginu né friðhelgi einkalífsins.
Sjálfstæðisflokkurinn er einnig klofinn milli sveitarfélaga í málinu og er borgarstjórnarflokkurinn andvígur sáttmálanum ólíkt bæjarstjórnarflokkunum á höfuðborgarsvæðinu.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í Kópavogi, segir flokksmenn í Kópavogi einnig gera athugasemdir við ógagnsæi í sáttmálanum. „Helsta bitbeinið eru vegtollarnir. Þeir fela óhjákvæmilega í sér rafrænt eftirlit,“ segir Sigurbjörg. Þar að auki geti vegtollar bitnað meira á tekjulægra fólki sem býr í úthverfum.
