Í yfirliti Pálma Vilhjálmssonar, aðstoðarforstjóra MS, um mjólkurbirgðir sem birtist í svokölluðum mjólkurpósti til bænda kemur fram að smjörbirgðirnar núna séu um 150 tonnum meiri í lok ágúst en á sama tíma árið 2018. Birgðir hafa ekki verið svona miklar síðan í ágústmánuði árið 2016.
Það sem af er árinu hafa rúmlega hundrað tonn verið flutt út af smjöri og hafa fengist fyrir það um 490 krónur á hvert kíló til útflutnings. Einnig segir Pálmi í yfirliti sínu að í undirbúningi sé útflutningur á allt að tvö hundruð tonnum af smjöri til viðbótar.

„Framleiðslan hér innanlands er heldur yfir þörfum sem nauðsynlegt er á hverjum tíma til þess að við getum verið viss um að geta sinnt okkar heimamarkaði. Útflutningur er fyrst og fremst stundaður til að halda jafnvægi.“
Kílóverð á smjöri er um eitt þúsund krónur út úr búð. Verðið sem hefur fengist fyrir útflutning er hins vegar helmingi lægra, eða tæpar 500 krónur á hvert kíló.
„Það er ákveðin útflutningsskylda og við erum að takast á við þá skyldu. Við sjáum á þessari stöðu að það var heillavænlegt af bændum að halda í kvótafyrirkomulagið til þess að missa ekki framleiðsluna út í vitleysu. Það hefði ekki verið til hagsbóta fyrir íslenska bændur að missa framleiðslustýringuna,“ bætir Arnar við.