Esper, sem lenti í höfuðborg Afganistan á sunnudag, sagði það ekki útilokað að Bandarískar hersveitir myndu gera árásir gegn hryðjuverkasamtökum bæði í Írak og í Sýrlandi. Hann sagði í samtali við fréttamenn sem eru á ferðalagi með honum að það kæmi í ljós með tímanum.

Ljóst er að áætlanir Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, um að draga hersveitir Bandaríkjanna frá Sýrlandi munu ekki standast á næstunni, fyrst ekki er útilokað að þær ráðist einnig inn í Sýrland að nýju. „Það er kominn tími til að hermenn okkar komi aftur heim,“ sagði Trump á miðvikudag. Þeir eru ekki á leiðinni heim.
Gagnárásir á hryðjuverkahópa næsta skref
Þegar Esper yfirgaf Washington á laugardagskvöld héldu bandarískar hersveitir áfram að yfirgefa norðurhluta Sýrlands eftir að Tyrkir réðust yfir landamærin. Tyrkir og Kúrdar samþykktu á fimmtudag að leggja vopn niður tímabundið en ekki hefur staðið við það samkomulag. Hersveitir beggja fylkinga hafa barist nú um helgina.Tyrkneska varnarmálaráðuneytið segir að einn hermaður þeirra hafi látið lífið eftir átök við Kúrda.
Trump fyrirskipaði að hersveitir Bandaríkjanna sem staddar voru í Sýrlandi myndu hörfa eftir að Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, gerði honum það ljóst að hersveitir hans myndu ráðast inn í Sýrland til að hrekja í burtu Kúrda, sem Tyrkir líta á sem hryðjuverkamenn.
Ákvörðun Trump hefur verið harðlega gagnrýnd og er hann sagður hafa yfirgefið Kúrda, sem voru bandamenn Bandaríkjanna til margra ára en Kúrdar hafa verið í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS. Á milli 200 til 300 bandarískir hermenn munu halda til í al-Tanf í suðurhluta Sýrlands.

„Það fyrsta er að hjálpa til við að verja Írak og hitt er að gera gagn árásir á ISIS á meðan við erum að ákveða hver næstu skref verða,“ sagði hann. „Það verða einhverjar breytingar á áætlunum þegar við ljúkum því að draga okkur frá svæðinu, en þetta er okkar áætlun eins og er.“
Meira en 5.000 bandarískir hermenn eru nú í Írak, en löndin tvö sömdu um það. Bandaríkjaher fór frá Írak árið 2011 þegar verkefnum hersins þar lauk en Bandaríkjaher fór þangað aftur þegar hryðjuverkasamtökin ISIS skutu þar upp kollinum og náðu stjórn á stórum hluta landsins árið 2014. Fjöldi hermanna Bandaríkjahers í Írak er ekki mikill vegna pólitísks landslags þar en sumir Írakar halda því fram að Bandaríkin hafi hernumið landið á meðan á stríðið hófst árið 2003.
Mikilvægt að flóttafólk komist örugglega heim
Esper sagði að hann muni ræða við aðra bandamenn á fundi NATO í næstu viku til að ræða næstu skref í baráttunni gegn ISIS. Þá sagði hann að það kæmi til greina að sérsveit Bandaríkjahers myndi taka að sér verkefni í Sýrlandi til að berjast gegn ISIS.Hann sagði að Sýrlenski lýðræðisherinn, her Kúrda í norðurhluta Sýrlands, haldi stjórn yfir fangelsum í Sýrlandi þar sem vígamenn ISIS eru í haldi. Tyrkir hafa, sagði hann, ýjað að því að þeir hafi náð stjórn á fangelsunum.
„Ég get ekki metið hvort það sé rétt eða ekki án þess að hafa fólk á svæðinu,“ sagði Esper.

Samkvæmt opinberum heimildarmanni sem starfar fyrir yfirvöld Bandaríkjanna eru enn nokkur hundruð hermenn í Sýrlandi. Hersveitir Bandaríkjanna hafi haldið til á einum stað í vestri og á nokkrum stöðum í austri.
Heimildarmaðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið, sagði að Bandaríski herinn fylgist ekki náið með því hvernig vopnahléið gangi en sé meðvitaður um átök og brot á samningnum. Þá sagði hann að það myndi taka nokkrar vikur að yfirgefa Sýrland.
Nancy Pelosi, forseti neðri deildar Bandaríkjaþings, fór ásamt hópi bandarískra löggjafa til Jórdaníu til að ræða versnandi ástand í Sýrlandi.
Ríkisútvarp Jórdaníu, Petra, sagði að Abdullah II, konungur, hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að tryggja að landsvæði Sýrlands héldist óbreytt og að tryggja þyrfti að flóttafólk myndi komast örugglega aftur til síns heima, í samtali við sendinefndina.