Sautján manns hið minnsta eru látnir eftir að árás var gerð á landamærastöð á landamærum Tadsíkistans og Úsbekistans í morgun.
Erlendir fjölmiðlar segja landamæravörð og lögreglumann hafa fallið áður en árásinni var svarað. Segir að af þeim tuttugu sem stóðu fyrir árásinni hafi fimmtán verið drepnir og aðrir handteknir.
Frá þessu greina talsmenn innanríkisráðuneytisins í Tadsíkistan. Er hópi herskárra íslamista kennt um árásina og eru þeir sagðir hafa komið frá Afganistan í skjóli nætur um liðna helgi til að framkvæma árásina.
Árásin átti sér stað um 80 kílómetrum suðvestur af höfuðborginni Dushanbe.
Stjórnvöld í Tadsíkistan og Úsbekistan hafa að undanförnu átt í viðræðum til að leysa langvinnar deilur ríkjanna um 1.312 kílómetra löng landamæri þeirra.
Erlent