Setning kirkjuþings í gær markaði nokkur tímamót því þetta er í fyrsta sinn sem það er haldið þegar forseti kirkjuþings, biskup Íslands og kirkjumálaráðherra eru konur. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kirkjumálaráðherra ávarpaði setningu þingsins.
„Það hafa allavega mjög margir gengið úr þjóðkirkjunni og þetta er örugglega ein ástæðan fyrir því hve kirkjan var sein að taka við sér hér um árið, og það er það sem Áslaug Arna er að vísa til,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Sagði ráðherra kirkjan yrði að læra af mistökum sínum. Biskup segir kirkjuna á öðrum stað í dag þar sem konur eru í ábyrgðarstöðum.
„Og við konur höfum verið að taka til í kirkjunni að mínu áliti. Í því sambandi dettur mér í hug ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur sem nefnist kona. Þar talar hún um karlana og vindlareykinn þeirra og konurnar séu að svæla hann út.“
Við setningu kirkjuþings nefndi Áslaug að óhjákvæmilegt sé að stefna áfram á sömu braut í átt að fullum aðskilnaði ríki og kirkju. Sagði Áslaug það undir kirkjunni komið að halda tengslum við þjóðina. Aðskilnaður ríkis og kirkju hófst árið 1997. Agnes segir kirkjuna geta staðið á eigin fótum.
„Ég tel svo vera að hún geti það. Hins vegar hefur ríkið skyldur við þjóðkirkjuna sem eru lögfestar í stjórnarskrá Íslands, þar sem segir að ríkið eigi að vernda og styðja þjóðkirkjuna. Meðan svo er þá hefur ríkið hlutverki að gegna enda er þjóðkirkjan eina trúfélagið í landinu sem hefur sérstökum skyldur í samfélaginu sem önnur trúfélög hafa ekki.“