Nokkur ökutæki fóru í ána Tarn, nærri bænum Mirepoix-sur-Tarn, þegar brúin hrundi klukkan átta í morgun að staðartíma.
Brúin var 155 metrar að lengd og sjö metrar að breidd og var síðast gerð upp árið 2003. Fjórum var bjargað í brúarhruninu og stendur leit enn yfir að fólki sem kann að hafa farið í ána. Óljósar upplýsingar hafa borist um fjölda þeirra ökutækja sem voru á brúnni þegar hún hrundi.
Lögregla hefur hafið rannsókn á málinu, en tugir björgunarmanna hafa verið að störfum á svæðinu í allan dag.
