Reiknað er með því að erfið veðurskilyrði muni ýta undir frekari útbreiðslu gróðurelda í Ástralíu í komandi viku. Gert er ráð fyrir því að hitabylgja, eldingar og óstöðugir vindar eigi eftir að gera viðbragðsaðilum enn erfiðara fyrir.
Fjórir hafa þegar látist á austurströnd Ástralíu vegna gróðureldanna. Nú þegar er unnið að því dag og nótt að halda aftur af eldunum en talið er að þeir séu alls yfir 130 talsins.
Von er á liðsauka frá Nýja Sjálandi strax eftir helgi sem mun aðstoða ástralska viðbragðsaðila við glímuna miklu.
Í ríkinu New South Wales eru 367 heimili sögð hafa orðið eldi að bráð síðastliðna viku og hefur verið tilkynnt um 56 elda í ríkinu.
Hættulegir gróðureldar eru algeng sjón í Ástralíu en ástandið hefur sjaldan verið verra vegna mikilla þurrka og vinda. Talsmenn ástralskra yfirvalda hafa áður gefið út að um um fordæmalausan fjölda alvarlegra gróðurelda sé að ræða.
Hópur fyrrverandi slökkviliðsstjóra saka yfirvöld um að hafa hunsað viðvaranir um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á tíðni og umfang gróðurelda í landinu.
Spá versnandi ástandi í Ástralíu

Tengdar fréttir

Gróðureldar ógna enn íbúum í Ástralíu
Yfirvöld í Ástralíu vara við því að hinir gríðarlegu gróðureldar sem nú brenna í tveimur ríkjum landsins verði áfram hættulegir þrátt fyrir að veðurskilyrði hafi skánað.

Fjórir látnir vegna gróðureldanna í Ástralíu
120 eldar loga enn í New South Wales og Queensland og óttast er að eldar kvikni einnig í Vestur-Ástralíu.

Á níunda tug kjarrelda brennur í Ástralíu
Varað er við hamfaraaðstæðum fyrir elda í Nýju Suður-Wales í dag.

Neyðarástandi lýst yfir vegna gróðureldanna í Ástralíu
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í fjölmennasta ríki Ástralíu, New South Wales, og þar með talið stórborgina Sydney, vegna gríðarlegra kjarrelda sem þar geisa en ástandið hefur aldrei verið eins slæmt í ríkinu.