Litla sveitaþorpið hefur á fáum árum breyst í alþjóðlegan ferðamannabæ. Hótel og veitingastaðir hafa sprottið upp sem og fjölbreytt afþreyingarstarfsemi. Elías Guðmundsson segir frá uppbyggingunni, sem hann hefur staðið fyrir, en hann er orðinn sá umsvifamesti í ferðaþjónustugeiranum í Vík.

Fjórmenningarnir sem reka fyrirtækið Zip-line segja frá línubruninu og svifvængjafluginu og draumi sínum um að gera Vík að ævintýraþorpi Íslands. Við spyrjum einnig hvað hjólabátar, sovéskir hertrukkar og Antonov-flugvél eru að gera í þorpinu.

Við heyrum hversvegna Mýrdælingar eru montnir af golfvellinum sínum en þeir segjast spila golf allt árið.
„Við erum náttúrlega nær Miðjarðarhafinu en restin af landinu,“ segir Anna Huld Óskarsdóttir, formaður Golfklúbbsins í Vík.
Þátturinn um Vík er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10, strax að loknum fréttum og Íslandi í dag. Hér má sjá brot úr þættinum: