Ungu strákarnir
Eiður Smári benti réttilega á í Vellinum að Lampard þyrfti ekkert endilega að nota ungu strákana. Hann kysi að gera það. Enda hafa þeir gæðin til að standa sig í deild þeirra bestu. Nýjasta viðbótin við Mason Mount, Christian Pulisic, Callum Hudson-Odoi, Tammy Abraham og Fikayo Tomori var frammistaða Reece James sem núllaði út Wilfried Zaha. James er aðeins 19 ára, hann hirti stöðuna af César Azpilicueta, fyrirliða Chelsea, og hefur fengið mikið hrós.

Þegar Azpilicueta var tekinn út úr liðinu vantaði Chelsea fyrirliða. Lampard lét Brasilíumanninn Willian fá fyrirliðabandið og Brassinn var stórkostlegur í leiknum gegn Palace. Aðstoðaði ungu leikmennina eftir fremsta megni og virtist vera leiðtogi sem enginn vissi að hann væri – nema auðvitað Lampard.
Rétt farið með góða menn
Hudson-Odoi var nánast genginn út um dyrnar til FC Bayern í sumar en hætti við eftir að hafa spjallað við Lampard.
Guttinn hefur svakalegan hraða og hefur lagt upp þrjú mörk það sem af er tímabilinu. Jorginho hefur einnig lýst því hvernig samband þeirra Lampards hefur gert hann að betri leikmanni. Þá voru margir hugsi yfir hvernig Lampard notaði Pulisic í upphafi en það er enginn að velta því fyrir sér lengur. Það er nánast hægt að halda því fram að liðið sakni Edens Hazard ekkert sérstaklega mikið.
Agi og gleði
Chelsea hefur ekki fengið eitt einasta rautt spjald í deildinni og brotið af sér aðeins 61 sinni. Af þeim brotum hafa 23 haft gul spjöld í för með sér.
Ungir drengir gera oft barnaleg mistök en Lampard hefur náð að halda einbeitingu drengjanna í allar 90 mínúturnar. Þannig hefur liðið ekki heldur gert nein mistök sem hafa leitt til marks. Í bland við mikla einbeitingu spilar liðið með bros á vör og hefur fengið hrós fyrir skemmtilegan leik – enda hefur það skorað 27 mörk sem er það fjórða mesta í ensku úrvalsdeildinni.
Gáfuð og greind
Aðrir með yfir 150 í greindarvísitölu eru: Jessica Alba 151, Mark Zuckerberg 152, Colin Firth 153, Sharon Stone 154, Michael Jordan 154, Cindy Crawford 154, Donald Trump 156, Lisa Simpson 159, Silvester Stallone 160, Steve Jobs 160, Matt Damon 160.