Merkúríus færist fyrst inn á skífu sólarinnar klukkan 12:35 að íslenskum tíma og fer út af henni aftur klukkan 18:04. Hægt er að fylgjast með þvergöngunni með sólarsjónauka þar sem sést til sólar og veður leyfir. Til þess að greina reikistjörnuna þegar hún gengur fyrir sólina þarf stjörnusjónauka með helst um fimmtíufalda stækkun. Algerlega nauðsynlegt er að nota sólarsíur til að forðast augnskaða og horfa aldrei beint í sólina.
Nokkuð þungbúið er þó yfir landinu í dag og því verða aðstæður tæplega hentugar til að fylgjast með þvergöngunni. Síðast gekk Merkúríus fyrir sólina í maí árið 2016 en sú næsta verður árið 2032.
Merkúríus er innsta og jafnframt minnsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar. Bergreikistjarnan er tæpir 4.900 kílómetrar að þvermáli, um 38% af þvermáli jarðar. Yfirborðið er alsett gígum og þykir helst minna á tunglið okkar. Evrópska geimfarið Bepi Colombo er væntanlegt til Merkúríusar í desember árið 2025 en því var skotið á loft í október í fyrra.
Í dag gengur Merkúríus fyrir sólina frá Jörðu séð. Þvergangan hefst kl. 12:35 og lýkur 18:04 og sést því að hluta til frá Íslandi (með sólarsjónauka), ef veður leyfir. Merkúríus gekk seinast fyrir sólu árið 2016 og tók ég þá þessa mynd. Næsta þverganga verður árið 2032. pic.twitter.com/0by7uK6YWl
— Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) November 11, 2019