Innlent

Gert ráð fyrir á­fram­haldandi sam­göngu­truflunum

Eiður Þór Árnason skrifar
Strætó hvetur alla farþega til að fylgjast grannt með veðurspá og tilkynningum.
Strætó hvetur alla farþega til að fylgjast grannt með veðurspá og tilkynningum. Vísir/Vilhelm
Veðurviðvaranir eru í gildi um allt land í dag, nema á Vestfjörðum, og er fólk hvatt til að fara að öllu með gát ef ferðast er á milli landshluta og sömuleiðis huga að hlutum sem geta fokið í nærumhverfi sínu. Gert er ráð fyrir því að truflun verði á samgöngum víða um land vegna veðurs.

Strætó hefur gefið út að miklar líkur séu á því að ferðir á landsbyggðinni falli niður vegna veðurs í dag. Truflanir eru á ferðum Strætó leiðum 51, 52 og 57. Strætó hvetur alla farþega til að fylgjast grannt með veðurspá og tilkynningum á Twitter síðu Strætó eða á heimasíðu Strætó.

Öllu innanlandsflugi Air Iceland Connect og Flugfélagsins Ernis hefur verið aflýst í dag.

Tilkynnt hefur verið að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur muni sigla til Þorlákshafnar í dag vegna veðurs.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar var orðið hvasst á Vesturlandi nú í morgun, hviður 35-40 m/s undir Hafnarfjalli, en verður skárra um tíma undir kvöld. Aftur á að fara að versna um kl. 20. Hviður verða einnig undir Eyjafjöllum og á Kjalarnesi eftir hádegi. Vegfarendur er hvattir til þess að fylgjast með færð og veðri.

Einnig er víða farið að hvessa verulega á Suðvesturlandi. Á Reykjanesbraut frá kl. 15 verður snarpur hliðarvindur og vatnselgur.

Síðast uppfært klukkan 13:30 með frekari upplýsingum frá Strætó og úr innanlandsflugi.

 

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×