Tedros Adhanom, yfirmaður WHO, segir ástandið harmleik og það koma niður á viðbragðinu við faraldrinum.
AP fréttaveitan segir íbúa Beni reiða yfir því að uppreisnarmenn „Allied Democratic Forces“ haldi mannskæðum árásum sínum áfram, þrátt fyrir að friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna og hermenn Kongó haldi til í boginni. Hundruð almennra borgara hafa fallið í árásum ADF undanfarin ár og þar af átta í árás í Beni á sunnudagskvöld.
Meðal annars krefjast mótmælendur þess að Sameinuðu þjóðirnar grípi til aðgerða gegn uppreisnarmönnum eða yfirgefi svæðið. Sameinuðu þjóðirnar eru með um 18 þúsund friðargæsluliða á svæðinu.
Bæjarskrifstofa Beni var brennd í mótmælunum í gær auk áðurnefndrar herstöðvar.
Sameinuðu þjóðirnar sögðu fljótt eftir mótmælin að ekki væri hægt að grípa til einhliða aðgerða á svæði þar sem herinn væri þegar virkur. Felix Tshisekedi, forseti Kongó, hélt neyðarfund í gær þar sem ákveðið var að leyfa sameiginlega aðgerðir hers Kongó og Sameinuðu þjóðanna.
Frá því dreifing ebólu var skilgreind sem faraldur í ágúst í fyrra hafa minnst 3.100 manns smitast og þar af hafa 2.100 dáið. Undanfarið hefur þó dregið verulega úr smitum og hefur nokkrum sinnum komið fyrir í þessum mánuði að enginn smitaðist á einum degi.
Svo WHO geti lýst því yfir að faraldrinum sé lokið þurfa 42 dagar að líða án nýrra smita.