Skoðun

Vanda­málið er ekki skortur á trausti

Eva Hauksdóttir skrifar
Forsætisráðherra skipaði nefnd til að finna út hvernig auka mætti traust almennings á stjórnmálum. Af því að engum datt í hug að heppileg leið til þess væri að sú að standa við orð sín, segja satt, hafa upplýsingar aðgengilegar og axla ábyrgð. Ekki fer neinum sögum af því hvað gert var við tillögur starfshópsins, sem komst að einkar fyrirsjáanlegum niðurstöðum.

Að auka traust á atvinnulífinu

Nú þarf að auka traust almennings á atvinnulínu. Til þess ætlar sjávarútvegsráðherra, persónulegur vinur Þorsteins Más í Samherja, að óska eftir úttekt Alþjóðamatvælastofnunarinnar (FAO) á viðskiptaháttum fyrirtækja sem versla með aflaheimildir í þriðja heiminum. Aðstoðarframkvæmdastjóri stofnunarinnar er Íslendingur, fyrrum fjármálaráðherra og einn þeirra sem báru ábyrð á bankahruninu. Það vill svo skemmtilega til að sá hinn sami var sjávarútvegsráðherra áður en hann varð fjármálaráðherra. Hann er þekktur fyrir frændhygli og fékk sem dómsmálaráðherra á sig dóm til greiðslu miskabóta eftir að hafa misnotað aðstöðu sína til þess að skipa son Davíðs Oddssonar í embætti héraðsdómara. Hér er stutt samantekt á nokkrum afrekum Árna Mathiesen.

Auðvitað mun úttekt FAO ekki auka traust eins eða neins á íslensku atvinnulífi. Og engum sem neinu ræður mun detta í hug að öruggasta leiðin til þess sé almennilegt eftirlit, að kröfum um heiðarlega viðskiptahætti sé framfylgt, að upplýsingar séu almenningi aðgengilegar og það hafi verulega óþægilegar afleiðingar að brjóta af sér.

Allra síst mun forystu VG detta í hug að traust almennings á bæði stjórnmálunum og atvinnulífinu verði áfram í molum á meðan við sitjum uppi með fjármálaráðherra sem hvað eftir annað hefur þótt tortryggilegur.



Skortur á trausti er ekki vandamál

Skortur á trausti er ekki vandamál á Íslandi. Vandamálið er rótgróin spilling og það væri heimskulegt að treysta stjórnmálamönnum og atvinnurekendum sem komast upp með það ár eftir ár að misnota aðstöðu sína. Spilling verður ekki upprætt með því að fá heiðarlegra fólk í ábyrgðarstöður. Spilling er nefnilega eðlileg í þeim skilningi að maðurinn hefur meðfædda hvöt til þess að gera sér lífið auðveldara, hygla sínum nánustu og treysta þeim þrátt fyrir augljósa breyskleika. Til þess að sporna gegn spillingu þurfa tvö grundvallaratriði að vera í lagi:



  1. Gagnsæi og gott aðgengi að upplýsingum
  2. Það þarf að vera einfalt og fljótlegt að losna við þá sem misnota aðstöðu sína og koma í veg fyrir að þeir sömu komist aftur í valdastöður


Ef þessi tvö atriði eru ekki í lagi mun eftirlit alltaf verða veikt og götótt og þeir sem á endanum hrekjast frá einum kjötkatlinum ganga beint að hinum næsta. Þeir einu sem treysta kerfi sem ekki bregst við þeirri hættu eru heimskingjar og þeir sem sjálfir njóta góðs af því.

Höfundur er álitshafi.


Tengdar fréttir




Skoðun

Sjá meira


×