Mótmælendurnir beina reiði sinni að umbótatillögum stjórnar landsins í efnahagsmálum og almenna óánægju í garð ríkisstjórnar Iván Duque Márquez forseta.
Talsmenn stofnana og hreyfinga sem stóðu að mótmælaaðgerðunum segja að á aðra milljón manna hafi tekið þátt í aðgerðunum. Segja þeir gærdaginn hafa verið sögulegan og sigur fyrir landið. Um leið hafa þeir hvatt til þess að þeir fái fund með forsetanum til að ræða kröfugerð þeirra.
„Kólumbíumenn hafa talað í dag. Við heyrum í þeim. Samfélagsviðræður hafa verið eitt meginstef þessarar ríkisstjórnar og við þurfum að dýpka hana í öllum geirum samfélagsins,“ sagði Duque án þess þó að svara því til hvort til standi að eiga beinar viðræður við skipuleggjendur mótmælanna.
Talsmenn yfirvalda segja að 42 mótmælendur og 37 lögreglumenn hafi slasast í mótmælunum. Þá hafi 37 verið handteknir.