Skoðun

Hver bjó til ellilífeyrisþega?

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Eftirlaun eiga sér rætur til seinni hluta nítjándu aldar í Prússlandi þegar fólk sem náði 70 ára aldri gat fengið borgaralaun frá samfélaginu enda oft útslitið. Þessi aldursmörk hafa haldist þrátt fyrir breytingar á vinnuálagi og aðstæðum.

Af einhverjum orsökum telja stjórnvöld að þessi viðmið eigi alltaf að gilda og opinberir starfsmenn megi ekki vinna lengur en til sjötugs. Gildir engu hvort þeir vilja hætta eða ekki. Stundum ber á því að þeir séu eftir starfslok taldir vera til vandræða.

Öldrunarfordómar eru til í samfélaginu og þeir snerta stóran hóp, ekki eingöngu eldra fólk heldur líka aðstandendur þeirra og þá sem vinna með eldra fólki. Fyrsta skrefið í átt að því að eyða öldrunarfordómum er að stjórnkerfið skoði sjálft sig enda leggur það línurnar og setur fyrirmyndirnar. Þessir fordómarnir gagnvart öldruðum koma fram með margvíslegum hætti. Þeir vísa til staðlaðrar ímyndar og fordóma um eldra fólk, alveg eins og kynþáttafordómar og kynjamisrétti verða vegna húðlitar eða kynferðis. Dæmi um fordóma gegn öldruðum er þegar því er haldið fram að aldraðir séu staðnaðir, sérvitrir og heilsulausir o.s.frv.

Flokkur fólksins hefur lagt til að velferðarsvið Reykjavíkur taki út hvernig öldrunarfordómar birtast í borgarkerfinu, í samþykktum og regluverki borgarinnar sem fjalla um eldri borgara. Markmiðið er að draga úr fordómum og fyrsta skrefið hlýtur að vera að skoða með hvaða hætti stjórnkerfi borgarinnar fjallar um eldri borgara, hvað setur fólk í stöðu sem grundvallast einungis á aldri þeirra (hindranir, takmörk, samþykktir, laga- og regluverk). Samskonar könnun þyrfti að gera á laga- og regluverki sem Alþingi hefur sett.

Vert væri að Reykjavíkurborg kannaði hvort eldri borgarar séu almennt að upplifa mismunun vegna aldurs og þá með hvaða hætti. Það að eldri borgarar megi ekki vinna eins lengi og þeir vilja eru fordómar þar sem gert er ráð fyrir að við sjötugsaldur verði borgarar skyndilega slakir þátttakendur á vinnumarkaði - eingöngu vegna aldurs.

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×