Handbolti

Sportpakkinn: „Björgvin hefur staðið sig betur og betur í Danmörku“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur segir að staðan á íslensku landsliðsmönnunum sé býsna góð.
Guðmundur segir að staðan á íslensku landsliðsmönnunum sé býsna góð. vísir/vilhelm

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, tilkynnti í dag 19 manna æfingahóp fyrir EM 2020.

Björgvin Páll Gústavsson hefur ekki leikið síðustu fimm leiki íslenska landsliðsins er einn þriggja markvarða í æfingahópnum ásamt Ágústi Elí Björgvinssyni og Viktori Gísla Hallgrímssyni.

„Ég valdi þrjá markmenn en förum að öllum líkindum bara út með tvo. Það á eftir að koma í ljós hverjir verða valdir á endanum. En Björgvin hefur staðið sig betur og betur í Danmörku og á endanum snýst þetta um frammistöðu,“ sagði Guðmundur í samtali við Arnar Björnsson.

„Svo erum við með yngri markmenn með honum. Við erum að horfa til framtíðar og á frammistöðuna eins og hún er í dag.“

Guðmundur segir að staðan á íslensku landsliðsmönnunum sé góð og þeir staðið sig vel á tímabilinu.

„Staðan er tiltölulega góð í flestum stöðum og margir af okkar leikmönnum hafa verið að spila mjög vel,“ sagði Guðmundur og fór svo yfir hópinn.

Fjórir línumenn eru í æfingahópnum; Arnar Freyr Arnarsson, Sveinn Jóhannsson, Kári Kristján Kristjánsson og Ýmir Örn Gíslason.

„Þrír af fjórum línumönnum geta spilað vörn og sókn og þeir allir eru mjög efnilegir,“ sagði Guðmundur.

„Það sem hefur háð okkur er sóknarleg geta á línunni. Þess vegna kemur Kári inn í þetta og svo sjáum við hvernig endanlegt lið verður.“

Viðtalið við Guðmund má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Guðmundur búinn að velja æfingahópinn

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×