Körfubolti

Besta byrjun Los Angeles Lakers liðsins í 34 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James í leiknum í nótt.
LeBron James í leiknum í nótt. Getty/ Don Juan Moore

LeBron James var ekki búinn að halda upp á eins árs afmælið sitt þegar þegar Los Angeles Lakers byrjaði síðast jafnvel og á þessu tímabili.

Los Angeles Lakers liðið vann 96-87 sigur á Orlando Magic í NBA deildinni í nótt og hefur unnið 22 af 25 leikjum sínum á tímabilinu.

Þetta er besta byrjun Lakers liðs á tímabilið síðan 1985 til 1986 þegar Magic Johnson, Kareem Abdul-Jabbar og James Worthy voru í stjörnuhlutverkum í liðinu. Pétur Guðmundsson kom inn í Lakers liðið seinna á því tímabili og var með 7,3 stig að meðaltali á 16,0 mínútum í átta deildarleikjum.

Nú snýst allt um þá LeBron James og Anthony Davis sem er á sínu fyrsta tímabili með Lakers. LeBron James kom í heiminn 30. desember 1984 en Lakers vann 22. leikinn sinn á 1985-86 tímabilinu 18. desember 1985. Kareem Abdul-Jabbar var þá með 31 stig, James Worthy skoraði 22 stig og Magic Johnson bætti við 12 stigum og 8 stoðsendingum.



LeBron James var með sjöttu þrennuna sína á tímabilinu á móti Orlando Magic (25 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar) og  Anthony Davis bætti við 16 stigum og 12 fráköstum. James er með 25,9 stig og 10,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur og er efstur í deildinni í stoðsendingum.

Los Angeles Lakers og Milwaukee Bucks eru með besta árangurinn í NBA-deildinni en Bucks liðið hefur unnið sextán leiki í röð.

Lakers tapaði fyrsta leik tímabilsins á móti nágrönnunum í Los Angeles Clippers en hefur síðan unnið 22 af 24 leikjum sínum eða alla leiki nema leikina á móti Toronto Raptors 10. nóvember og Dallas Mavericks 1. desember. Liðið vann fimmta leikinn í röð í nótt.

Lakers er á ferðinni um Austurströndina og næstu fjórir leikir eru einnig á útivelli. Liðið mætir Miami Heat, Atlanta Hawks og Indiana Pacers áður en kemur að leik á móti Milwaukee Bucks 19. desember.

Los Angeles Lakers verður hins vegar heima yfir nær öll jólin því frá 20. desember til 9. janúar spilar liðið aðeins einn útileik og sá verður í Portland 28. desember.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×