Erlent

Bandaríkjamenn sameinist gegn gyðingaandúð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvatt samlanda sína til þess að sína samstöðu í kjölfar stunguárásar á heimili rabbína í New York-fylki í gær.

Árásin átti sér stað í gær, í Monsey, stutt norður af New York-borg. Minnst fimm særðust, en árásarmaðurinn var síðar handtekinn í Harlem-hverfinu í síðarnefndu borginni. Bandarískir fjölmiðlar segja árásarmanninn hafa mætt með sveðju og sært fjölda fólks áður en hann yfirgaf staðinn á bíl.

Trump forseti sendi frá sér tíst fyrr í dag þar sem hann lýsti árásinni sem „hrottafenginni.“ Þá hvatti hann Bandaríkjamenn til þess að standa saman og „berjast, horfast í augu við og eyða þeirri illu plágu sem gyðingaandúð er,“ og bætti við að hann og eiginkona hans, Melania Trump, sendi fórnarlömbum árásarinnar óskir um hraðan og fullan bata.



Forseti Ísrael, Reuven Rivlin, hefur einnig fordæmt árásirnar og lýst yfir reiði sinni.

„Upprisa gyðingaandúðar er ekki einungis vandamál gyðinga, og heldur ekki vandamál Ísraelsríkis eins,“ hefur BBC úr yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

„Við verðum að vinna saman og horfast í augu við þessa illsku, sem enn og aftur skýtur upp kollinum og ógnar víðs vegar um heiminn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×