Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni verður ekki með neina flugeldasölu í ár en félagar hennar ætla þess í stað að ganga í hús og selja Rótarskot. Formaður sveitarinnar segir að flugeldasala hjá lítili sveit standi engan vegin undir sér.
Um fjörutíu karlar og konur eru félagar í Björgunarsveitinni Ingunni en aðeins tíu virkir félagar. Nú er komið að tímamótum í sveitinni því í fyrsta skipti í ár verða engir flugeldar seldir á vegum sveitarinnar.
„Við erum lítil sveit úti á landi í fámennu sveitarfélagi og það er mikil vinna fyrir lítinn pening sem er í raun og veru, sem spilar aðallega inn í það. Við erum kannski tíu virkir og það er ekki nóg sala til að við getum fengið ágóða af þessu“, segir Grímur Kristinsson, formaður Ingunnar.
Grímur segir að nú verði Rótarskot eingöngu seld á vegum Ingunnar fyrir áramótin, gengið verði í hús á Laugarvatni og keyrt á sveitabæi í Laugardalnum til að selja þau. Í leiðinni verði fólki og fyrirtækjum boðið að styrkja flugeldasýningu sveitarinnar, sem verður á Laugarvatni á Gamlársdag klukkan 21:00 um kvöldið.
En nú er alltaf talað um að flugeldasala sé ein allra mesta tekjulind björgunarsveita, tekur Grímur undir það?
„Nei, ekki hjá okkur minni sveitum og sérstaklega sem eru ekki með sjávarútveginn með okkur, það eru ekki kvótakóngar, sem styrkja okkur hér inn í landi, þetta er öðruvísi menning í raun og veru heldur en hjá þessum litlu sveitum, sem eru í þessum sjávarþorpum, það er bara svoleiðis“
Grímur segir að bændur séu ekki spenntir að kaupa flugelda því skepnur séu mjög hræddar við allar sprengingarnar, þeir vilji miklu frekar kaupa Rótarskot.
„Bændur eru kannski að hugsa um sinn búfénað, það eru hestar úti í girðingu, sem verða hræddir á áramótunum. Þeir eru kannski ekki alveg eins spenntir fyrir því að hrella búpening sinn, það er nú bara þannig“, segir Grímur