Leitin að Rimu Grunskyté Feliksasdóttur sem var haldið áfram í dag bar engan árangur. Engar nýjar vísbendingar fundust í viðamikilli leit björgunarsveita á Suðurlandi.
Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal, segir að alls hafi 78 manns verið við leit auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leitinni. Leitarsvæðið náði frá Þjórsá og austur að Skaftá.
„Nei, það eru bara engar nýjar vísbendingar. Það hefur ekki fundist. Það voru pínu erfiðar aðstæður á köflum í dag og ekki hægt að fara alls staðar þar sem við ætluðum, það var svo mikið brim, þannig að það truflaði okkur aðeins,“ segir Orri.

Stöðufundur verður hjá lögreglu á eftir hvað á gera í framhaldinu, til að mynda hvort og þá með hvaða hætti leitað verður um helgina.
Fjölmennt lið björgunarsveita og lögreglu hefur leitað að Rimu undanfarna daga en hannar hefur verið saknað síðan á föstudaginn í síðustu viku. Bíll Rimu fannst við Dyrhólaey á Þorláksmessu en annað hefur ekki fundist af eigum hennar.