Innlent

Vegir víða lokaðir vegna veðurs

Eiður Þór Árnason skrifar
Vetrarfærð er nú víða á landinu.
Vetrarfærð er nú víða á landinu. Vísir/Vilhelm

Vegir víða á Norðurlandi og Austurlandi eru lokaðir vegna veðurs. Víðast hvar er vetrarfærð um land allt, mjög víða skafrenningur og hálka eða snjóþekja, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Gul veðurviðvörun verður í gildi á morgun á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi.

Hringveginum um Ljósavatnsskarð var lokað í kvöld vegna versnandi veðurs, færðar og snjóflóðahættu, samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Vegurinn verður lokaður fram til klukkan tíu í fyrramálið. Vegurinn lokaðist síðast í gær vegna snjóflóðs.

Einnig hefur Vopnafjarðarheiði, Víkurskarði og veginum um Hólasand verið lokað vegna veðurs. Það sama á við um veginn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi og hluta Siglufjarðarvegs um Almenninga.

Versnandi veður og færð er á Öxnadalsheiðinni og telur Vegagerðin líkur vera á því að hún verði ófærð eftir að vakt starfsmanna lýkur þar klukkan tíu í kvöld.

Búast má við því að Hringveginum á Suðausturlandi, frá Lómagnúp og að Jöklulsárlóni, verði lokað í fyrramálið klukkan átta fram á miðnætti hið minnsta.


Tengdar fréttir

Enn ófært víða um land

Víða er enn ófært á vegum á Norðaustur- og Austurlandi vegna óveðurs sem þar var í gær og nótt. Mokstur er hafinn í Vatnsskarði og er verið að skoða með mokstur á Öxnadalsheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×