Umfangsmikil leit stendur yfir að týndum göngumanni á Snæfellsnesi og koma tæplega 300 manns að leitinni. Fyrsta útkallið barst á sjöunda tímanum í dag og komu fyrstu hópar á svæðið um sjö. Maðurinn er talinn hafa farið í fjallgöngu í Heydal, norður af Rauðameli, og er hann sagður vanur fjallgöngum. Hann ku þó ekki hafa skilað sér til byggða.
Björgunarsveitir voru kallaðar til víðsvegar frá og hefur bæst verulega við mannskapinn með kvöldinu.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir markmiðið að nýta veðrið til leitarinnar. Það sé sæmilegt núna en mun verra veðri er spáð á morgun. Leitinni verði haldið áfram í minnsta lagi eitthvað fram á nótt, þar til annað verði ákveðið.
„Mér sýnist á öllu að menn muni reyna að halda krafti í þessu núna,“ segir Davíð. „Á meðan fólk hefur orku og þrek í að vinna þá halda þau áfram held ég.“
