Íslenski boltinn

Fyrsti bikarmeistaratitill Selfoss í húfi: „Reynum að halda okkur á jörðinni“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Anna María Friðgeirsdóttir getur orðið fyrst Selfyssinga til þess að lyfta bikartitlinum á laugardaginn
Anna María Friðgeirsdóttir getur orðið fyrst Selfyssinga til þess að lyfta bikartitlinum á laugardaginn vísir
Selfoss spilar til bikarúrslita í þriðja sinn á laugardag þegar liðið mætir KR í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna á Laugardalsvelli.

„Það er smá spenna, en maður reynir bara að halda sér á jörðinni og líta á þetta sem venjulegan leik,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, á blaðamannafundi KSÍ í dag.

Selfyssingar fóru í bikarúrslitin 2014 og 2015 og töpuðu báðum leikjum fyrir Stjörnunni. Anna María kom við sögu í báðum þeim leikjum og vill ekki upplifa það aftur að tapa úrslitaleik.

„Það er hrikalega súr tilfinning og maður vill bara helst sleppa við hana.“

Liðin mættust á Selfossi í Pepsi Max deildinni í byrjun júlí þar sem Selfoss vann 1-0 sigur. Hvernig leik á Anna María von á á laugardaginn?

„Hörku leik. KR er með hörku lið og leikurinn sem við spiluðum við þær á Selfossi var hörku leikur, datt okkar meginn og við skulum bara vona að hann geri það aftur á laugardaginn.“

„Við spilum okkar leik, þær gera það væntanlega líka, en við erum með ákveðið leikplan og ætlum að halda okkur við það. Vonandi skilar það okkur titlinum.“

Bikarúrslitaleikurinn er á Laugardalsvelli á laugardaginn, 17. ágúst, og hefst hann klukkan 17:00. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending hálftíma fyrir leik. Fyrir þá sem ætla að mæta á völlinn vill KSÍ hvetja fólk til þess að kaupa miða fyrir fram á tix.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×