Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun þar sem samþykkt var að frumvarp forsætisráðherra um að sanngirnisbætur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu yrðu lagðar fyrir Alþingi.
Frumvarpið kveður á um heimild ráðherra til að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar, fyrir sléttu ári í dag og að bætur verði einnig greiddar til aðstandenda þeirra sýknuðu sem fallnir eru frá.
„Frumvarpið sjálft er bara mjög einfalt, bara þrjár greinar og síðan er greinargerð sem rekur í raun og veru grundvöllinn sem sáttanefndin var að vinna á og þetta byggir á þeim drögum sem að komu frá henni,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Fram hefur komið að ríkislögmaður skilaði inn greinargerð í síðustu viku í skaðabótamáli Guðjóns Skarphéðinssonar, eins af fimm sakborningum sem Hæstiréttur sýknaði í fyrra, en þar er bótakröfum hans, upp á rúman milljarð króna, hafnað og krafist sýknu. Þá hefur ekki tekist samkomulag við aðra sakborninga eða afkomendur þeirra. Forsætisráðherra segir að ekki sé lög til sérstök upphæð í frumvarpinu.
„En það er hins vegar greint frá því í greinargerð að sú upphæð sem síðast var unnið með af hálfu sáttanefndar var í heils sinni 759 milljónir og hvernig hún skiptist niður á einstaka aðila,“ segir Katrín.
Framvarpið verður lagt fyrir Alþingi í næstu viku. Náist samstaða um afgreiðslu þess gengur það gegn greinargerð ríkislögmanns í síðustu viku.
„Ef Alþingi samþykkir slíka heimild þá er það auðvitað skýr vilji löggjafans um að ná samkomulagi á þessum grunni,“ segir Katrín.